Líkamsræktin Siglufirði
Á dögum var farið í það að endurnýja líkamsræktartæki í íþróttamiðstöðinni Siglufirði. Á síðustu árum hafa notendur verið að kvarta undan lélegu ásigkomulagi tækjanna og sent bæjaryfirvöldum áskorun um að skipta út tækjunum og hefur nú verið brugðist við því.
Næsta haust verður farið í að byggja við líkamsræktina í Ólafsfirði og hafði íþrótta- og tómstundafulltrúa verið falið að kanna með kaup á tækjum á báða staði. Þar sem GYM heilsa var að loka tveimur stöðum hjá sér í Kópavogi gerðu þeir Fjallabyggð gott tilboð um kaup á tækjum frá Nautilus sem fallist var á. Nú er sem sagt búið að skipta út tækjum á Siglufirði og samskonar tæki fyrir Ólafsfjörð eru komin norður og bíða eftir að byggt verði utan um þau.
Nú er búið að vera opið í ræktina á Siglufirði í tvo daga eftir að tækjum var skipt út og hafa notendur lýst yfir mikilli ánægju með nýju tækin. Upphitunartæki eru nú nokkuð fleiri en var og eins hefur lyftingartækjum verið fjölgað. Hér má sjá nokkrar myndir úr salnum.