Embætti skólameistara við framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð

Menntamálaráðuneytið hefur nú auglýst laust til umsóknar embætti skólameistara við nýja framhaldsskólann við utanverðan Eyjafjörð. 

Starfssvið
Skólameistari veitir framhaldsskólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi skólans og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.

Skólameistari mun leiða hugmyndavinnu, uppbyggingu og skipulagningu faglegrar starfsemi skólans í samstarfi við hagsmunaaðila en gert er ráð fyrir sveigjanleika og möguleikum til nýbreytni í starfsháttum skólans.

Menntunar- og hæfniskröfur
Samkvæmt 14. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, skal skólameistari hafa starfsheitið framhaldsskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi.

Leitað er eftir einstaklingi með stjórnunarreynslu, leiðtoga- og samskiptahæfni, reynslu af stefnumótunarvinnu og hæfileika til nýsköpunar. Ný lög um framhaldsskóla nr. 92/2008 fela framhaldsskólum aukna ábyrgð á skilgreiningu námsbrauta, þróun námsframboðs á mörkum skólastiga og fræðsluskyldu til 18 ára aldurs.

Ráðning og kjör
Menntamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar skv. 6. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Miðað er við að skipað verði í embættið frá og með 1. janúar 2010.

Um laun skólameistara fer eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. lög um kjararáð, nr. 47/2006, með síðari breytingum.

Umsóknir með ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf skulu hafa borist mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, fyrir kl. 16:00, þriðjudaginn 15. desember 2009. Nánari upplýsingar um starfið veitir Kristín Jónsdóttir, skrifstofustjóri upplýsinga- og þjónustusviðs í ráðuneytinu.