Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í annað sinn um nýliðna helgi og þóttu þeir takast einstaklega vel en talið er að um 1500 manns hafi verið í bænum á Trilludögum. Sólin lét lítið sjá sig en ljóst að það hafði ekki áhrif á stemninguna á hátíðinni.
Trilludagar voru skipulagðir í samvinnu við átta eldhressa trillukarla en gestum hátíðarinnar var boðið að stíga um borð í bátana og sigla út á fjörðinn þar sem rennt var fyrir fisk. Þegar í land kom var fólki boðið að grilla aflann og stóðu tveir vaskir menn vaktina við flökun og aðrir tveir við grillið. Heitt grænmeti var borið fram með fisknum í boði Kjörbúðarinnar á Siglufirði. Gafst þetta mjög vel og var þátttaka framar öllum vonum en um 4-500 manns nýttu sér þetta tækifæri sem stóð yfir frá kl. 10:30 til 16:00. Allir sem fóru um borð fengu nestispakka frá Aðalbakaríinu og drykk frá Kjörbúðinni á Siglufirði. Á meðan hljómuðu svo ljúfir tónar harmonikkunnar í höndum Stúlla.
Milli klukkan 16:00 og 18:00 var svo öllum boðið til grillveislu og héldu þeir Stúlli og Danni uppi rífandi Trilludagsstemningu á sviðinu á meðan.
Fleira var í boði á Trilludögum en þar má meðal annars nefna að Ingi Vignir Gunnlaugsson sýndi landnámshænur úr einkaræktun. Hannes Boy bauð upp á síldar- og sjávarréttarhlaðborð. Söngvaborg og Leikhópurinn Lotta skemmtu yngri kynslóðinni. Síldargengið fór rúnt um miðbæinn og var með síldarsöltun við Síldarminjasafnið, bryggjuball og harmonikkuleik. Börnum var boðið að fara á hestbak og tónlistarmenn úr heimabyggð komu fram á sviði en það voru Tryggvi og Júlíus Þorvaldssynir, Þórarinn Hannesson, Sturlaugur Kristjánsson og Daníel Pétur Daníelsson.
Fjallabyggð þakkar kærlega trillueigendum og sjómönnum, Kjörbúðinni á Siglufirði, Aðalbakaríinu, Kaffi Rauðku og öllum þeim fjölmörgu sem að hátíðinni komu með óeigingjörnu starfi en þessir aðilar gerðu hátíðina mögulega og jafn ánægjulega og raun bar vitni.
Ljóst er að Fjölskylduhátíðin Trilludagar er komin til að vera enda mikil ánægja með daginn.
Hér er að finna nokkra myndir sem teknar voru á Trilludögum.