Eining-Iðja mótmælir frestun jarðganga

Stjórn verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri hefur harðlega mótmælt ákvörðun stjórnvalda að fresta gerð Héðinsfjarðarganga til ársins 2006. Stjórnin telur að þessi ákvörðun muni hafa verulega slæm áhrif á þau byggðarlög sem ákvörðunin bitnar mest á. Í samþykkt sem gerð var á stjórnarfundi í dag segir: "Gera verður þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir standi við orð sín og byggi upp traust kjósenda sinna, en valti ekki yfir þá eins og gert er í þessu máli, en því miður verður æ algengara að ekkert er að marka málflutning stjórnmálamanna. Engar breytingar hafa átt sér stað í þjóðfélaginu, sem ekki voru auðséðar fyrir kosningar." Þá segir ennfremur í samþykktinni: "Stjórnin vonar að þessi ákvörðun sé ekki forsmekkurinn að efndum stjórnarflokkana í byggðamálum."Frétt af visir.is