Efnilegt frjálsíþróttafólk

Umf. Glói sendi 11 keppendur á Stórmót ÍR sem fór fram í hinni glæsilegu frjálsíþróttahöll í Laugardalnum í Reykjavík dagana 19. og 20. janúar sl. Fjöldi keppenda frá Siglufirði vakti mikla athygli og ekki síður hinn góði árangur sem okkar fólk náði.
Keppendur voru á aldrinum 8-15 ára og náðu toppsætum í öllum flokkum í keppni við efnilegasta frjálsíþróttafólk landsins. Keppendur á mótinu voru rúmlega 600 og í hverjum flokki kepptu 25-65 í hverri grein.
Allir keppendur Glóa bættu sig í einhverjum greinum og sumir voru að keppa á sínu fyrsta stóra móti.
Í flokki 8 ára og yngri varð Elín Helga Þórarinsdóttir í 4.-8. sæti í sínum þremur greinum. Salka Heimisdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði í kúluvarpi í flokki stúlkna 9-10 ára auk þess að ná góðum árangri
í öðrum greinum og María Lillý Ragnarsdóttir varð meðal 10 efstu í öllum sínum greinum, best 3. sæti í 600m hlaupi.
Í flokki 11-12 ára eigum við öfluga krakka en þrír af fjórum keppendum félagsins voru rétt að komast á ellefta ár og áttu því við ramman reip að draga. Engu að síður voru þau vel fyrir ofan miðju í flestum greinum og Jakob Snær Árnason náði lengst af þeim, 7. sæti í 800m hlaupi. Í sama flokki varð Arnar Þór Sverrisson 4. í kúluvarpi. Í flokki 13-14 ára áttum við tvo keppendur, Torfi Sigurðarson stóð sig mjög vel á sínu fyrsta móti og náði best 10. sæti í hástökki.
Guðrún Ósk Gestsdóttir er með efnilegustu frjálsíþróttastúlkum landis og varð hún 2. í langstökki auk þess að standa framarlega í öðrum greinum. Hún tók svo þátt í sérstöku boðsmóti Frjálsíþróttasambands Íslands þessa sömu helgi þar sem hún varð 6. í 800m hlaupi.
Svava Stefanía Sævarsdóttir er einnig mjög efnileg, keppti húní flokki 15-16 ára og kom heim með tvenn verðlaun, silfur í hástökki og brons í 800m auk þess að gera góða hluti í öðrum greinum.