Dreifibréf um íbúafundi á heimili í Fjallabyggð

Merki fundanna
Merki fundanna
Fjallabyggð hefur sent frá sér dreifibréf með upplýsingum um íbúafundina sem haldnir verða dagana 17. og 18. september. Dreifibréfinu er einnig hægt að hlaða niður með því að smella á krækjuna hér fyrir neðan. Smellið á „Lesa meira“ til að lesa ávarp bæjarstjóra. Dreifibréf um íbúafundi.

Kæri íbúi.

Í mörg undanfarin ár hefur verið samdráttur í útgerð og fiskvinnslu í Ólafsfirði og Siglufirði með þeim afleiðingum að ýmsar hliðargreinar hafa dregist saman, svo sem netaverkstæði, skipaafgreiðslur og þjónusta vélaverkstæða. Íbúum á svæði Fjallabyggðar hefur fækkað jafnt og þétt og ekki sér fyrir endann á þessari þróun, verði ekkert að gert.

Á móti þessari neikvæðu þróun kemur að störf hafa skapast í öðrum tegundum iðnaðar og þjónustu og vænlegir vaxtarbroddar hafa skotið upp kollinum. Nokkrir atorkusamir frumkvöðlar hafa ráðist í stofnun fyrirtækja og hrundið hugmyndum sínum í framkvæmd. Með því hafa þeir aukið fjölbreytnina í atvinnulífi á svæðinu og skapað sjálfum sér og öðrum varanlega atvinnu. Þessa frumkvöðla eigum við öll að taka okkur til fyrirmyndar.

Undanfarna mánuði og vikur hef ég, ásamt bæjarfulltrúum Fjallabyggðar fundað með stjórnvöldum og forsvarsmönnum stjórnarflokka og opinberra stofnana með það að markmiði að fjölga störfum í Fjallabyggð. Einnig hefur verið rætt við forsvarsmenn fyrirtækja, verkalýðsfélaga, Vinnumálastofnunar, Byggðastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og óskað eftir stuðningi þeirra við þetta brýna verkefni. Gera má ráð fyrir að útkoma úr þeirri vinnu skili sér á komandi mánuðum, en meira þarf að koma til.

Við höfum einsett okkur að virkja íbúa, fyrirtæki, félög, opinbera aðila og frumkvöðla í Fjallabyggð tilsamstarfs um að gera Fjallabyggð að frumkvöðli. Fyrsta skrefið er að boða til íbúafunda í Siglufirði og Ólafsfirði í næstu viku undir kjörorðunum „Fjallabyggð er frumkvöðull“. Á fundinum viljum við ræða hugmyndir og sjónarmið íbúa Fjallabyggðar um það hvað hægt er að gera til að snúa vörn í sókn, hvernig sveitarfélagið getur tileinkað sér vinnubrögð frumkvöðuls og hvað þarf til að skapa sem best skilyrði fyrir aðra frumkvöðla í samfélaginu.

Ég trúi því að við getum í sameiningu skapað vænleg skilyrði fyrir blómlegt atvinnulíf og vona að þú sjáir þér fært að mæta á íbúafundinn.

Með góðri kveðju,

Þórir Kr. Þórisson, bæjarstjóri.