Ráðhús Fjallabyggðar
Árlega hefur ritið Vísbending metið fjárhagslegan styrk sveitarfélaga og tekið heildarniðurstöðurnar saman. Úttektin byggir á ársreikningum sveitarfélaga og er farið rækilega yfir skuldir, tekjur, íbúafjölda, eignir og grunnrekstur, bæði A-hluta og B-hluta í efnahagsreikningi þeirra.
Sveitarfélögunum eru gefnar einkunnir eftir nokkrum þáttum eða forsendum sem leiða til þess að það sveitarfélag sem skorar hæst fær útnefninguna DRAUMASVEITARFÉLAGIÐ.
Forsendur draumasveitarfélagsins eru eftirfarandi:
- Skattheimtan þarf að vera sem lægst. Sveitarfélög með útsvarshlutfallið 13,70% fá 10 og sveitarfélög með hlutfallið 14,52% fá núll. Skalinn er í réttu hlutfalli þar á milli. Í Fjallabyggð er útsvarið 14,48%
- Breytingar á fjölda íbúa þurfa að vera hóflegar. Fjölgun á bilinu 1,6 til 3,6% gefur 10 og frávik um 1% frá þessum mörkum lækka einkunnina um einn heilan. Fjölgun íbúa í Fjallabyggð var 1.3%.
- Afkoma sem hlutfall af tekjum á að vera sem næst 10%, sem gefur einkunnina 10. Dreginn er frá 1 fyrir hvert prósentustig sem sveitarfélag er fyrir neðan 10% hlutfall. Dreginn er einn þriðji frá 10,0 fyrir hvert prósentustig yfir 10%. Í Fjallabyggð var niðurstaðan 9,66%.
- Hlutfall nettóskulda af tekjum sé sem næst 1,0. Frávik um 0,1 yfir þessu hlutfalli lækkar einkunnina um 1,0 frá einkunninni 10. Frávik um 1,0 fyrir neðan þetta hlutfall lækkar hana um 0,2. Ef skuldir eru mjög litlar getur það bent til þess að sveitarfélagið haldi að sér höndum við framkvæmdir. Þetta er breyting. Áður var miðað við 0,5. Í Fjallabyggð var hlutfallið 0.77.
- Veltufjárhlutfall sé nálægt 1,0 (sem gefur 10) þannig að sveitarfélagið hafi góða lausafjárstöðu en hafi ekki of mikla peninga í lélegri ávöxtun. Frávik um 0,1 neðan við hlutfallið gefur 1 í frádrátt. Frávik um 0,1 fyrir ofan hlutfallið gefur 0,5 í frádrátt. Hlutfall yfir 2,0 gefur einkunnina 5. Í Fjallabyggð er hlutfallið 1.82.
Allir þessir þættir gilda jafnt.
Lengi vel hefur mælikvarðinn skuldir á íbúa verið talinn gefa góða vísbendingu um fjárhagslega stöðu sveitarfélags. Í árslok 2015 var þessi mælikvarði um 1.750 þúsund krónur á mann sem er 50 þúsund krónum hærra en árið áður. Að raungildi er það aukning um rúmlega 1%. Í Fjallabyggð voru skuldir á mann 621.000 kr. og tekjur 1.134.000 kr. Hlutfallið þarna á milli er 55%. Eftirlitsnefnd með rekstri sveitarfélaga hefur miðað við að hlutfallið fari ekki yfir 150%.
Skuldahlutfall segir þó ekki alla söguna. Sum sveitarfélög hafa staðið í miklum framkvæmdum og vænta þess að fá meiri tekjur til baka en hin. Einnig má horfa á hlutfall skulda af tekjum ársins. Hlutfallið sýnir hversu lengi sveitarfélögin væru að borga skuldir sínar ef þau þyrftu ekkert að sinna rekstri eða nýjum framkvæmdum. Í einkunnagjöf er miðað við að hlutfallið sé ekki hærra en 100%.
Niðurstaða þessarar úttektar skilar Fjallabyggð í 3ja sæti með einkunina 7.5. Árið 2015 var Fjallabyggð í sjötta sæti með 7.1 stig. Niðurstaðan verður að teljast afar ánægjuleg og sýnir að rekstur Fjallabyggðar er mjög traustur.
Lesa má nánar um úttekt Vísbendingar á eftirfarandi slóð