Dagur leikskólans 6. febrúar

Sjötti febrúar er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín og er þessi dagur samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla.
Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.
Í tilefni af degi leikskólans sýna nemendur Leikskóla Fjallabyggðar listaverk og ljósmyndir úr starfinu á nokkrum fjölförnum stöðum í Fjallabyggð.

Leikskóli Fjallabyggðar starfar í tveimur byggingum. Annars vegar á Leikhólum í Ólafsfirði þar sem eru 38 börn og hins vegar Leikskálum á Siglufirði, þar eru 54 börn.  Á hvorum stað eru 3 deildir og þar dvelja börn á aldrinum 1-6 ára.
Einkunnarorð leikskólans eru LEIKUR AÐ LÆRA, sem vísar til þess að börn læra í gegnum leikinn og leikurinn er mikilvægasta náms- og þroskaleið þeirra. Við leggjum líka áherslu á lífsleiknikennslu. Við tökum fyrir eitt hugtak eða dygð á hverri önn og skoðum það frá mörgum hliðum. Fyrir áramót tókum við fyrir vinsemd og nú erum við að vinna með glaðværð.

Við viljum hvetja bæjarbúa til að kynna sér starfið sem fram fer í leikskólanum t.d. með því að fara inn á heimasíður Leikskólans Fjallabyggðar:  http://www.leikskolinn.is/leikholar   og http://www.leikskolinn.is/leikskalar.
 
Starfsfólk og börn Leikskóla Fjallabyggðar