Þann 6. febrúar er Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í áttunda sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu leikskólakennarar fyrstu samtök sín. Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, ráðuneytis mennta- og menningarmála, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.
Í tilefni dagsins hefur Olga Gísladóttir skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar tekið saman fróðlegan pistil um starfsemi leikskólans. Hann má lesa hér: (pdf-skjal)
Pistill:
Leikskóli Fjallabyggðar varð til árið 2010 við sameiningu tveggja rótgróinna leikskóla, Leikskála á Siglufirði og Leikhóla í Ólafsfirði. Leikskólinn er starfræktur á báðum stöðum fyrir börn á aldrinum 1-6 ára. Skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar er Olga Gísladóttir og aðstoðarskólastjóri er Kristín María Hlökk Karlsdóttir. Í Leikskóla Fjallabyggðar starfar stór og fjölbreyttur hópur starfsmanna, leikskólakennarar, grunnskólakennarar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfi, félagsliði, leikskólaliðar, stuðningsfulltrúar, leiðbeinendur, matráðar og ræstingafólk, samtals um 35 manns í misjafnlega miklu stöðuhlutfalli.
Þegar Leikskóli Fjallabyggðar var stofnaður 2010 voru nemendur um 80 en nú eru þeir 119. Á Leikhólum eru nú 43 nemendur og 76 á Leikskálum. Margháttaðar breytingar hafa orðið frá því að leikskólarnir tveir voru byggðir (Leikhólar 1982 og Leikskálar 1993). Þá var gert ráð fyrir að meirihluti barnanna dveldi í 4 stundir á dag í leikskólanum en nú er algengast að börn dvelji þar í 7-8 stundir daglega. Nú þarf því að gera ráð fyrir að gefa börnunum að borða og að þau hafi aðstöðu til að hvílast auk þess sem gera þarf ráð fyrir aðstöðu fyrir ýmsa sérfræðinga sem sinna nemendum í leikskólanum.
Til að mæta breyttum kröfum var húsnæði Leikhóla endurnýjað og byggt við það árið 2008 og þá var tekið í notkun nýtt eldhús og aðstaða starfsmanna bætt verulega. Þá var líka tekin í notkun ný deild fyrir yngstu börnin.
Á Leikskálum er staðan þannig að húsnæðið rúmar ekki lengur þá starfsemi sem nútíma leikskólastarf krefst. Nemendum hefur fjölgað þar um 30 á fjórum árum og enn er útlit fyrir fjölgun.Síðastliðið haust voru settir gámar á lóð leikskólans og þar var útbúin ein deild fyrir 14 börn. Það er þó bráðabirgðalausn sem leysir bara hluta vandans tímabundið. Eldhús Leikskála er ekki hannað til að útbúa mat fyrir næstum 100 manns og eins vantar sárlega betri aðstöðu fyrir starfsfólk og þau börn sem þurfa sérfræðiþjónustu.
Starfið í Leikskóla Fjallabyggðar er fjölbreytt og skemmtilegt. Einkunnarorð leikskólans eru: Það er leikur að læra og með því er lögð áhersla á að leikurinn í allri sinni mynd feli í sér nám og þroskamöguleika fyrir barnið. Leikurinn skal ávalt vera í öndvegi í leikskólastarfinu.
Í Leikskóla Fjallabyggðar kennum við námsefnið Lífsleikni í leikskóla, sem byggir á dyggðakennslu. Með lífsleikni er átt við hæfni til að takast á við lífið sjálft. Til að öðlast lífsleikni þarf barnið að læra umburðarlyndi í samskiptum sínum og samneyti við aðra, læra að bera virðingu fyrir ólíku atgervi,
skoðunum og menningu. Vinátta og samkennd er dýrmætt veganesti og góður undirbúningur undir virka þátttöku í félagslífi og samstarfi síðar í lífinu. Barnið þarf að tileinka sér lífsgildi, reglur, venjur og hefðir sem ríkja heima, í leikskólanum og í samfélaginu í heild. Í leikskólanum er frumkvæði barnanna eflt og styrkt og þannig verða þau hæfari til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Þau eiga að taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra og leik eftir því sem aldur og þroski leyfa.
Undanfarna mánuði höfum við verið að vinna með dyggðina hugrekki. Starfsfólkið hefur rætt um hugrekki, börnin hafa gert ýmsar kjarkæfingar og velt fyrir sér hvað er að vera hugrakkur. Stundum þarf til dæmis hugrekki til að segja frá ef maður er hræddur við eitthvað.
Á Degi leikskólans þann 6. febrúar munum við flagga í tilefni dagsins. Á Leikhólum fara börnin og hengja upp ljósmyndir og listaverk á nokkrum fjölförnum stöðum í Ólafsfirði til að minna á leikskólastarfið og á Leikskálum koma deildirnar saman og halda upp á daginn með söng og glensi. Í hádeginu þann 6. febrúar verður þorrablót. Þar fá börnin æfingu í hugrekki þar sem maturinn á þorrablótinu er mörgum börnunum framandi og það þarf hugrekki til að smakka súran mat, hákarl og fleira þjóðlegt góðgæti. Næsta dyggð sem við æfum okkur sérstaklega í verður kurteisi. Það er sem sagt alltaf líf og fjör hjá okkur í leikskólanum