Breytingar á rekstri fræðslustofnana framundan

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt tillögur fræðslunefndar um framtíðarskipan fræðslumála í Fjallabyggð. Með skipulagsbreytingunum telur bæjarstjórn að nemendum verði búið betra námsumhverfi en ella, auk þess sem þeim fylgir aukið rekstrarhagfræði.

Tillögurnar voru kynntar á fundi bæjarstjórnar þann 15. desember sl. og hafa í kjölfarið verið kynntar nemendum, starfsmönnum og öðrum íbúum. Í þeim felst að Tónskóli Ólafsfjarðar og Tónlistarskóli Siglufjarðar verði sameinaðir í eina stofnun, Leikskólarnir Leikhólar og Leikskálar í eina stofnun og  Grunnskóli Ólafsfjarðar og Grunnskóli Siglufjarðar í eina stofnun. Við það verða þrjár fræðslustofnanir í Fjallabyggð í stað sex eins og nú er, þ.e. Tónskóli Fjallabyggðar, Leikskóli Fjallabyggðar og Grunnskóli Fjallabyggðar. Stefnt er að því að stofnanirnar taki til starfa að hausti 2010.

Stofnanirnar  munu allar hafa starfsstöðvar á Siglufirði og í Ólafsfirði. Skipulagður verður skólaakstur til og frá Siglufirði fyrir nemendur frá Ólafsfirði í 7-10 bekk eftir opnun Héðinsfjarðarganga og stefnt að sameiningu yngra stigs í Ólafsfirði skólaárið 2012-13. Ráðnir verða skólastjórar og aðstoðarskólastjórar við allar stofnanir sem munu hafa starfsaðstöðu hvor í sínum bæ til að tryggja aðgengi að stjórnanda í öllum starfsstöðvum.

Bæjarstjórn hefur falið bæjarstjóra að auglýsa eftir skólastjórum nýrra skólastofnana og útfæra breytingarnar með tilliti til starfsmannahalds, í samráði við lögfræðinga og hlutaðeigandi stéttarfélög. Gert er ráð fyrir að tillögur um þetta efni verði teknar fyrir á fundi bæjarstjórnar í febrúar.

Breið pólitísk samstaða er um nýtt skipulag, enda tillögurnar unnar í nánu samstarfi meirihluta og minnihluta. Að baki tillögunum liggur mikil og vönduð vinna fræðslunefndar, starfsmanna og bæjarfulltrúa. Í þeirri vinnu voru hagsmuni nemenda hafðir að leiðarljósi í hvívetna. Bæjarstjórn þakkar fræðslunefnd og embættismönnum fyrir vandaðan undirbúning.

Fundargerð bæjarstjórnar á vef Fjallabyggðar:
http://www.fjallabyggd.is/is/greinar/view/21.01.2010_baejarstjorn

Tillögur fræðslunefndar um framtíðarskipan fræðslumála: http://www.fjallabyggd.is/skrar/.pdf/fb09_framtid_fraedslumala_opinber.pdf

Skýrsla Símenntunar Rannsókna og Ráðgjafar Menntavísindasviðs Háskóla Íslands um fræðslumál í Fjallabyggð:
http://www.fjallabyggd.is/skrar/.pdf/srr_uttekt_a_fraedslumalum_2009.pdf