Bókun bæjarráðs vegna stöðu og framtíðar MTR

Á fundi bæjarráðs í gær var lagt fram bréf Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um stöðu og framtíð framhaldsskóla í Eyþingi. Eftirfarandi var bókað:

"Bæjarráð Fjallabyggðar krefst þess að menntamálaráðherra láti af sínum áformum um sameiningu framhaldsskóla á Norðurlandi. Ekkert samráð hefur verið haft við bæjarráð Fjallabyggðar og er minnt á það að málefni framhaldsskólanna eru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, sem lagt hafa mikið á sig til þess að tryggja tilveru skólanna og möguleika þeirra til stækkunar.

Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR) hefur frá upphafi sannað gildi sitt og vaxið og dafnað á þeim fimm árum sem hann hefur starfað eftir nýrri námskrá og útskrifar nemendur á þremur árum. MTR hefur með fjölbreyttu námsframboði og góðu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu gert fólki á öllum aldri kleift að ljúka námi. Nái þessi áform fram að ganga óttast bæjarráð að menntunarstig svæðisins lækki og að almenn fólksfækkun verði.


Ljóst er að rökin sem liggja til grundvallar ákvörðunar menntamálaráðherra eiga ekki við í tilfelli MTR. Rökstuðningur ráðherra byggir á því að bregðast þurfi við samdrætti á umfangi vegna fækkunar nemenda og að skólarnir verði sjálfbærir um stoðþjónustu og rekstur. Hvorugt á við um MTR enda hefur aðsókn í skólann aukist ár frá ári og rekstur skólans verið til fyrirmyndar.

Bæjarráð Fjallabyggðar krefst þess að menntamálaráðherra láti af sínum áformum um sameiningu framhaldsskóla á Norðurlandi og fundi hið fyrsta með bæjarstjórn Fjallabyggðar um málið."


Steinunn María Sveinsdóttir formaður bæjarráðs
Kristinn Kristjánsson varaformaður bæjarráðs
S. Guðrún Hauksdóttir bæjarfulltrúi
Sólrún Júlíusdóttir bæjarfulltrúi

Undirrituð bókun (pdf.-60Kb)