Bókasafnið eignast bátalíkön

Björg og Njörður við afhendingu gjafarinnar
Björg og Njörður við afhendingu gjafarinnar

Þann 11. október 2016 færðu hjónin Björg Einarsdóttir og Njörður Jóhannsson, Eyrargötu 22 Siglufirði, bókasafninu okkar að gjöf tvö bátalíkön sem Njörður smíðaði. Þetta eru líkön af hákarlaskipunum Blíðahaga og Hraunaskipið sem svo var kallað. Þau verða bæði staðsett i bókasafninu á Siglufirði.

Blíðhagi var upphaflega smíðaður árið 1856 af Jóni Jónssyni, Brúnastöðum í Fljótum og Sæmundi Jónssyni, Ysta Mói í Fljótum. Blíðhagi var 31,4 fet að lengd og 9,4 fet að breidd.

Hraunaskipið var smíðað árið 1866 af Jóni Chr. Stefánssyni fyrir Einar B. Guðmundsson bónda og alþingismann frá Hraunum í Fljótum. Það var 32 fet að lengd og 10,5 fet að breidd.

Það má alveg geta þess að við líkanasmíðina notaði Njörður að hluta í bæði skipin efni úr skipi sem smíðað var árið 1852 og hét Tordenskjold. Það skip kannast margir við því það liggur á botni Siglufjarðar.
Bæði líkönin eru smíðuð í hlutföllunum 1:12.

Nánar má lesa um skipin í bæklingi sem Njörður hefur útbúið og liggur frammi á safninu og einnig má lesa um hrakfarir Hraunaskipsins í öðru bindi Skútaldarinnar sem að sjálfsögðu er til á safninu