Hópurinn fyrir utan Ráðhús Fjallabyggðar.
Fjallabyggð hefur í dag haft góða gesti er bæjarstjórar sveitarfélaga víðs vegar af landinu hafa verið í heimsókn. Á
hverju vori er haldin fundur bæjarstjóra og kom það í hlut
Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar að halda fundinn í ár. Í gær, fimmtudag, voru bæjarstjórarnir í Dalvíkurbyggð og
fengu kynningu á starfsemi sveitarfélagsins og í dag hafa þeir heimsótt Fjallabyggð.
Heimsóknin hófst í morgun með kynningu á starfsemi Tónskóla Fjallabyggðar og Menningarhússins Tjarnarborgar. Þar tóku
á móti þeim Anna María Guðlaugsdóttir, forstöðumaður Tjarnarborgar og Magnús G. Ólafsson skólastjóri
tónskólans auk þess sem þrír nemendur tónskólans léku fyrir gesti. Því næst var Menntaskólinn á
Tröllaskaga heimsóttur og þar fengu gestirnir m.a. að hlýða á nemendur af starfsbraut flytja lag og því næst fræddi Lára
Stefánsdóttir skólameistari þá um starfsemi skólans.
Að þeirri heimsókn lokinni var haldið yfir á Siglufjörð þar sem gestirnir fengu m.a. kynningu á starfsemi Rauðku ehf. Bæjarskrifstofan
var heimsótt og að endingu var farið í Þjóðlagasetrið og á Síldarminjasafnið. Í kvöld munu svo gestirnir snæða
á veitingastaðnum Hannes Boy.
Í Tjarnarborg fengu gestirnir kynningu á starfsemi Tjarnarborgar og Tónskóla Fjallabyggðar. Gestirnir gátu um leið notið
bútasaumssýningarinnar sem er í Tjarnarborg.
Nemendur á starfsbraut MTR sungu og spiluðu fyrir gesti.
Finnur Ingvi Kristinsson sá um kynningu á starfsemi Rauðku ehf.