Frá hannyrðarkvöldi á bókasafninu
Á fundi markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar þann 5. febrúar lagði forstöðumaður bókasafnsins, Hrönn Hafþórsdóttir fram árskýrslu 2014 fyrir bóka- og héraðsskjalasafnið ásamt upplýsingamiðstöðina á Siglufirði.
Helstu upplýsingar er koma fram í ársskýrslunni eru þessar:
Er varðar rekstur bókasafnsins kemur fram að útlánaaukning á milli áranna 2013 og 2014 hafi verið 21%. Útlán úr Gegni voru á árinu samtals 9.181 (Siglufjörður: 5.701/Ólafsfjörður: 3.480). Árið áður eða 2013 voru útlánin 7.587 (Siglufjörður:4.703/Ólafsfjörður:2.884).
Lánþegar með gild lánþegaskírteini voru 346 (Siglufjörður:189/Ólafsfjörður:132) sem er fjölgun frá fyrra ári um 64 en þá voru lánþegar með gild skírteini 282. Samkvæmt talningu voru lánþegakomur 6.818 (Siglufjörður:5.067/Ólafsfjörður:1.751). Aðrir gestir þ.e. skólahópar í safnkynningu, leikskólabörn, viðskiptavinir á bókamarkaði, gestir á hannyrðakvöldum og öðrum uppákomum voru samtals um 1.523 (Siglufjörður:1.000/Ólafsfjörður:523). Gestir upplýsingamiðstöðvar eru ekki inni í þessum tölum. Heildarfjöldi gesta sem heimsóttu bókasöfnin á árinu var því samtals 8.341. Árið 2013 var heildarfjöldi gesta 5.138. Gestakomum hefur því fjölgað um 3.203 eða um 62%.
Á Héraðsskjalasafninu heldur vinna áfram við skráningu eldri skjala í eigu Fjallabyggðar. Þann 18. ágúst 1984 var Héraðsskjalasafn Siglufjarðar stofnað, síðar Héraðsskjalasafn Fjallabyggðar við sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar árið 2006. Héraðsskjalasafnið hefur því verið starfrækt í hart nær 30 ár. Héraðsskjalasafnið er staðsett á annarri hæð ráðhússins að Gránugötu 24 á Siglufirði en aðstaða og aðgengi fyrir safngesti er á fyrstu hæð í almenningsbókasafninu.
Á upplýsingamiðstöðinni hófst skráning ferðamanna15. maí og lauk 30. september. Flestir komu í júlí eða 550 manns þar af voru 59 íslenskir, næstmest i júní 320 þar af 41 íslenskur, ágúst komu um 200 manns þar af 64 íslenskir. Um 130 manns komu í maí og 100 manns í september allt erlendir ferðamenn. Ferðamenn sem heimsóttu upplýsingamiðstöðina voru tæplega 1.300 frá öllum heimshornum en Þjóðverjar og Frakkar í miklum meirihluta. Einnig var mikið um Ítali, Spánverja, Norðurlandabúa og Portúgala en ferðamenn frá Asíulöndunum sáust varla. Einungis 164 af ferðamönnum eða tæplega 13% voru Íslendingar hitt voru erlendir ferðamenn.
Ársskýrsluna má lesa í heild sinni hér. (pdf-skjal)