Atvinnulífið

Út er kominn nýr 17 laga geisladiskur með hljómsveitinni Roðlaust og beinlaust gefin út af Mogomusic ehf. “Þung er nú báran ...” er fjórði geisladiskur hljómsveitarinnar í fullri lengd. Áður hefur Roðlaust og  beinlaust gefið úr “Bráðabrigðalög” (2001), “Brælublús” (2003) og “Sjómannssöngvar” (2006), sem allir hafa að geyma lög og texta tengda sjómennsku og sjósókn. Það sama á við um nýja diskinn “Þung er nú báran ...”. Diskurinn er seldur í símasölu og rétt eins og með fyrri geisladiska hljómsveitarinnar Roðlaust og beinlaust, mun allur ágóði af sölu “Þung er nú báran ...” renna til stuðnings Slysavarnaskóla sjómanna.

Hljómsveitin Roðlaust og beinlaust hefur á undanförnum árum verið einn stærsti stuðningsaðili Slysavarnaskóla sjómanna.  Hljómsveitin, sem að hluta til er skipuð sjómönnum af frystitogaranum Kleifabergi ÓF-2, ákvað árið 2003 að láta allan ágóða af sölu disksins “Brælublús” renna óskipt til Slysavarnaskóla sjómanna til eflingar á öryggisfræðslu sjómanna í landinu.  Ágóðinn af sölunni, sem var 1,4 milljónir, voru notaðar til kaupa á endurlífgunarbrúðum til nota við verklega kennslu í endurlífgun.  Á sjómannadaginn árið 2004 spilaði hljómsveitin lög sín um borð í skólaskipinu Sæbjörgu á siglingu þess hátíðargesti í tilefni dagsins við feikigóðar undirtektir.  Við útgáfu á disknum “Sjómannssöngvar” ákvað hljómsveitin enn á ný að láta ágóða sölunnar, rúmar tvær milljónir króna, renna til Slysavarnaskóla sjómanna. Var sú gjöf nýtt meðal annars til kaupa á hjartastuðtækjum til  nota við kennslu á námskeiðum skólans.  Hefur þessi mikilvægi stuðningur hljómsveitarinnar Roðlaust og beinlaust sannarlega komið Slysavarnaskólanum og sjómannastéttinni að góðum og nytsamlegum notum í viðleitninni að efla þekkingu og hæfni sjómanna í öryggis- og björgunarmálum.