Arna Guðný Valsdóttir opnar sýningu í Kompunni

Arna Guðný Valsdóttir opnar sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði laugardaginn 3. maí kl. 14.00.
Verkið nefnist "Mahú Blassdjús - Raddteikning" og byggir á 26 ára gömlu hljóðverki sem Arna vann á skólaárum sínum í Hollandi. Verkið skilgreinir Arna sem “raddteikningu” og útskýrir nánar: Verkið vann ég í upptökustúdíói á 16 rása upptökutæki. Ég var ein í studióinu og vann verkið á þann hátt að ég gerði fyrst upptöku á eina rás þar sem ég spann með röddinni eða “teiknaði” línu sem mótaði form í loftið. Línan varð til í augnablikinu á sama hátt og þegar við rissum á blað án fyrirframgefinnar hugmyndar. Ég stillti síðan á næstu rás, hlustaði á þá fyrri í heyrnartólum og vann næstu línu. Ekkert var undirbúið heldur lét ég augnablikið ráða hvernig næsta rödd svaraði þeirri fyrri. Ég hlustaði á þær raddir sem fyrir voru og byggði jafnóðum ofan á þær. Í raddteikningunum vinn ég út frá lögmálum myndlistar. Ég vinn með myndbyggingu, liti, línu og form í hljóðrænu formi eða myndlist án sjónrænnar birtingar. Ég vann eingöngu eina upptöku af hverri rödd og lét fyrstu tilraun standa.

Sýningin stendur til 25. maí og er opin eftir samkomulagi eða þegar skilti er úti kl. 14.00-17.00.
Allar nánari upplýsingar gefur Aðalheiður í síma 865-5091

Arna er búsett á Akureyri og hefur um árabil kennt við Verkmenntaskólann á Akureyri samhliða eigin listsköpun. 


1989: JanVan Eyck academie, Maastricht, Holland, Video- Audiodeild
1986: Myndlista og Handíðaskóli Íslands, Grafíkdeild