Ályktun um álver á Bakka við Húsavík

Í ályktun, sem bæjarráð Fjallabyggðar sendi frá sér fimmtudaginn 28. febrúar, er skorað á stjórnvöld að beita sér fyrir því að af framkvæmdum við álver á Bakka við Húsavík geti orðið sem fyrst. Auk þess segir í ályktuninni að samdráttur í fiskvinnslu og landbúnaði haft veruleg áhrif á afkomu fólks á landsbyggðinni og bent er á fólksfækkun á ýmsum svæðum á Norðurlandi. Kjölfesta í atvinnumálum sé nauðsynleg til þess að snúa vörn í sókn og geti fyrirhugað álver á Bakka skapað slíka kjölfestu.

Ályktunin var svo hljóðandi

Bæjarráð samþykkti eftirfarandi ályktun.
Á undanförnum árum hefur mikill samdráttur í fiskvinnslu og landbúnaði haft veruleg áhrif á afkomu fólks, atvinnuöryggi og búsetu á landsbyggðinni. Á síðustu 10 árum hefur íbúum á svæðinu frá Húsavík til Raufarhafnar, sem nú heitir Norðurþing, fækkað um 15%. Mest hefur fækkunin verið í aldurshópnum 40 ára og yngri, en í þeim aldursflokki hefur íbúum fækkað um 25%.
Þess má geta þess að á síðastliðnum 10 árum hefur íbúum Fjallabyggðar fækkað um 25%.
Kjölfesta í atvinnumálum er nauðsynleg til þess að snúa vörn í sókn og viðhalda gróskumikilli byggð á Norðausturlandi. Fyrirhugað álver á Bakka getur skapað þessa kjölfestu.
Það er alveg ljóst að Norðausturland býr ekki við þá þenslu sem er á suðvesturhorni landsins og því skorar bæjarráð Fjallabyggðar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að af þessum framkvæmdum geti orðið sem fyrst.