Alþýðuhúsið á Siglufirði valið á Eyrarrósarlistann 2020

Sex ólík menn­ing­ar­verk­efni á lands­byggðinni hafa verið val­in á Eyr­ar­rós­arlist­ann 2020.
Þrjú verkefnanna hljóta formlega tilnefningu til verðlaunanna og eiga þar með möguleika á að hljóta Eyrarrósina 2020 og er Alþýðuhúsið á Siglufirði eitt af þeim. 

Verkefnin sem eru tilnefnd eru:
Kakalaskáli í Skagafirði,
Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda á Patreksfirði.

Alls bár­ust 25 um­sókn­ir um Eyr­ar­rós­ina, hvaðanæva af land­inu.

Eyr­ar­rós­in er viður­kenn­ing sem veitt er framúrsk­ar­andi menn­ing­ar­verk­efni utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Hún bein­ir sjón­um að og hvet­ur til menn­ing­ar­legr­ar fjöl­breytni, ný­sköp­un­ar og upp­bygg­ing­ar á sviði menn­ing­ar og lista. 

Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 14. febrúar næstkomandi á Seyðisfirði, heimabæ handhafa Eyrarrósaarinnar 2019; listahátíðarinnar List í ljósi. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin. Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar, Byggðastofnunar og Air Iceland Connect.

Um verkefnin

Júlíana - hátíð sögu og bóka
Framtak fjögurra kvenna í Stykkishólmi sem ákváðu að koma á fót bóka- og söguhátíð að vetri til þess að lífga upp á menningarlífið í bænum. Fyrsta hátíðin fór fram í febrúar 2013 og hefur verið haldin árlega síðan. Hátíðin hefur að leiðarljósi að stuðla að umfjöllun um þýðingu sögunnar og sagnaarfsins í samtímanum og hverfist hver hátíð um ákveðið viðfangsefni. Júlíana – hátíð sögu og bóka er haldin í góðu samstarfi við ýmsar menningar og menntastofnanir Stykkishólmsbæjar og býður árlega heim rithöfundum í fremstu röð. Hátíðin ber nafn Júlíönu Jónsdóttur í Akureyjum (1838-1917), fyrstu íslensku skáldkonunnar sem fékk gefna út eftir sig ljóðabók og leikrit eftir sig sett á svið.

Kakalaskáli í Skagafirði - TILNEFNING
Í Kakalaskála er sögu Sturlungaaldar miðlað á afar áhugaverðan hátt. Um er að ræða sögu og listsýningu með hljóðleiðsögn. Sýningin var unnin af 14 listamönnum frá 10 mismunandi þjóðlöndum vorið 2019 sem gefur nýja og ferska sýn á þjóðararfinn og stendur fyrir sínu bæði sem sögu- og listsýning. Á staðnum er einnig sérstætt útilistaverk sem sviðsetur Haugsnesbardaga. Útilistaverkið samanstendur af ríflega 1300 steinum sem taka hver álíka pláss og einn maður í herfylkingu myndi gera. Sviðsmyndin sýnir fylkingar Sturlunga og Ásbirninga skömmu áður en þær skella saman í bardaga. Verkið er unnið af Sigurði Hansen.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði - TILNEFNING
Í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hefur um árabil verið rekið fjölþætt menningarstarf allt árið um kring sem hefur haft mikil áhrif á bæjarbraginn. Aðstaðan er góð fyrir sýningar í litla sýningarrýminu Kompunni, haldnir eru fyrirlestrar og kynningar af ýmsum toga í alrými hússins og í stóra vinnusalnum eru haldnir tónleikar, listasmiðjur, fjöllistasýningar, gjörningar og margt fleira. Á þeim 8 árum sem starfseminni hefur verið haldið úti hafa um þúsund listamenn og skapandi einstaklingar komið fram í Alþýðuhúsinu og um 300 viðburðir verið settir upp fyrir gesti og gangandi að njóta.

Plan-B Art Festival, Borgarnesi
Grasrótarhátíðin Plan-B Art Festival hefur frá árinu 2016 fest sig í sessi sem þekkt stærð íslensku listalífi og vex ásmegin ár frá ári. Hátíðin er haldin árlega í Borgarnesi og nærsveitum. Stefna Plan-B Art Festival er að vera vettvangur fyrir listamenn til að þróa hugmyndir sínar og listsköpun í því formi sem þeir kjósa. Þeir miðlar sem listamenn hátíðarinnar vinna í eru því fjölbreyttir, allt frá málverki til gjörninga, sem gerir hátíðina að upplifun sem gestir taka beint og óbeint þátt í að skapa.

Reykholtshátíð í Borgarfirði
Reykholtshátíð er ein af rótgrónustu tónlistarhátíðum landsins og hefur verið haldin árlega allt frá árinu 1996 síðustu helgina í júlí í Reykholti í Borgarfirði. Flytjendur úr fremstu röð íslensks tónlistarlífs hafa komið fram á hátíðinni í gegnum tíðina auk margra erlendra gesta. Aðstandendur Reykholtshátíðar hafa unnið brautryðjendastarf á Íslandi með því að halda úti tónlistarhátíð á landsbyggðinni með áherslu á klassíska söng- og hljóðfæratónlist. Hátíðin er mikilvægur viðburður í menningarlífi sögustaðarins Reykholts og telst til eins af hápunktum ársins í menningarlífi Vesturlands og á landsvísu.

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda, Patreksfirði - TILNEFNING
Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndafólks og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar. Auk frumsýninga eru á dagskrá vinnustofur, hliðardagskrá og skemmtanahald sem setur mikinn svip á Patreksfjörð á meðan á hátíðinni varir.

Fréttin er aðsend.