Sunnudaginn 7. júní kl. 13:00 opnar sýning Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur Mynd eftirmynd í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Sýningin stendur til 21. júní og er opin daglega frá l. 14:00-17:00.
Á sýningunni teflir Ingunn Fjóla fram þremur myndpörum sem samanstanda af ofnum málverkum og daufum einlitum flötum sem málaðir eru beint á veggi sýningarrýmisins. Verkin mynda innsetningu í rýminu þar sem hefðir handverksins og málverksins mætast. Könnun á grunneiginleikum málverksins og þræðir í hinum ýmsu myndum hafa oft og tíðum verið áberandi í verkum Ingunnar Fjólu, allt frá stórum innsetningum sem áhorfandinn gengur inn í, til minni verka. Á undanförnum árum hefur hún fikrað sig meira og meira í átt til heimspekilegrar nálgunar fyrirbærafræðinnar í listsköpun sinni. Hvernig skynjum við listaverk - er það hluturinn sjálfur eða upplifunin af honum sem við skynjum? Er litur áþreifanlegur eða óáþreifanlegur – er hægt að snerta hann?
Þessi nýju verk hafa víðfeðma tilvísun. Dauft málaður flöturinn á veggnum getur framkallað blekkingu í augum áhorfandans, er hann að horfa á myndleif (e. afterimage) eftir verkið við hlið þess eða málaðan flöt? Ingunn Fjóla leikur sér hér með þessa blekkingu augans. Málaði flöturinn á veggnum er í lit sem er andstæða við aðallit vefsins. Stærð og hlutföll frummyndarinnar eru endurtekin í eftirmyndinni, en með því ímyndar Ingunn Fjóla sér hvernig myndleif verksins gæti litið út. En þá vaknar spurningin um hvort eftirmyndin sé í eðli sínu frummynd eða eftirmynd? Þar sem myndleif er í raun augnabliks skynvilla sem birtist í sjónsviði áhorfenda, mætti segja að málaði flöturinn á veggnum sé eftirmynd ímyndaðrar eftirmyndar og út frá því jafn mikil frummynd og ofna málverkið sjálft.
(úrdráttur úr sýningartexta eftir Aldísi Arnardóttur)
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir er með M.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Verk hennar hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum, bæði innanlands og erlendis. Hún hefur lengi kannað samband áhorfanda, verks og rýmis í gegnum innsetningar og málverk. Verkin eru oftast bundin ákveðnu rými þar sem hún notar mismunandi aðferðir til að umbreyta rýminu, ýmist með því að þenja málverkið út í rýmið eða byggja þrívíðar innsetningar sem áhorfandinn gengur inn í. Undirliggjandi eru hugleiðingar um fagurfræðilega upplifun og líkamlega skynjun áhorfandans.
Uppbyggingarsjóður/Eyþing, Fjallabyggð, Eyrarrósin, Tannlæknar í Fjallabyggð, Kjörbúðin og Aðalbakarí styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.