Laugardaginn 3. desember frá kl. 14:00 - 18:00 verður opið hús í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Í ár hefur Aðalheiður verið að fagna 10 ára menningarstarfi í Alþýðuhúsinu í hennar eigu og gaf út bók af því tilefni. Einnig hlaut hún Bæjarlistamannstitilinn í Fjallabyggð fyrir árið 2022 sem senn er að ljúka.
Með þakklæti fyrir móttökurnar síðastliðin 10 ár og Bæjarlistamanns árið býður Aðalheiður til vinnustofusýningar í Kompunni þar sem sett eru upp verk unnin á ferðalögum síðastliðið ár. Verkin eru vatnslitamyndir unnar undir áhrifum tónlistar og eru þannig ákveðin hugleiðsla og slökun frá amstri dagsins.
Einnig verður opið í vinnusal Aðalheiðar þar sem gefur að líta ýmis verk stór og smá og í Anddyri hússins má finna verk sem ratað gætu í jólapakka. Opið verður í Anddyrinu og Kompunni daglega frá kl. 14:00 - 17:00 til 21. desember.
Heitt verður á könnunni og góðgæti með í boði hússins.
Allir velkomnir.