Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur verður í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sunnudaginn 29. október kl. 20:00. Auk þess að lesa upp mun Eiríkur ræða við lesendur, áhorfendur og áheyrendur um sögusviðið, trú og hjátrú, ástina og svikult eðlið, náttúru manna, fjalla og hafs, og allra handa hamfarir – og hugsanlega jafnvel sýna myndir! Þá verður bókin til sölu og áritunarpenninn á lofti.
Undur og stórmerki: Náttúrulögmálin
Landsmenn og listaspírur! Lesendur! Bókmenntaáhugafólk – athugið! Á komandi vikum mun rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl þræða firði þessa lands, knæpur þess, bókasöfn og kaffihús og lesa fyrir þjóðina úr nýrri skáldsögu sinni, Náttúrulögmálin, sem kemur í bókabúðir þann 19. október. Náttúrulögmálin er ástarsaga með yfirskilvitlegum litbrigðum, í senn öguð söguleg skáldsaga og taumlaus fantasía. Hún gerist á Ísafirði árið 1925 og fjallar (meðal annars!) um hundrað drykkfellda presta og einn óviljugan biskup – en líka búðarlokuna Engilráð í Turninum og blaðakonuna Rósu Maju á Lúðrinum, séra Jónas mannspart og Imbu sel, Guð almáttugan í upphæðum og jafnvel andskotann sjálfan, ef vel er að gáð.
Auk þess að lesa upp mun Eiríkur ræða við lesendur, áhorfendur og áheyrendur um sögusviðið, trú og hjátrú, ástina og svikult eðlið, náttúru manna, fjalla og hafs, og allra handa hamfarir – og hugsanlega jafnvel sýna myndir! Þá verður bókin til sölu og áritunarpenninn á lofti.
Siglufjörður: Alþýðuhúsið
Sunnudagurinn 29. október, kl. 20.00
Um bókina frá útgefanda, Máli og menningu:
„Hafið þér heyrt af þjóðtrú þeirri sem segir að ef sjö prestar og einn eineygður standi fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju muni Gleiðarhjalli allur losna af Eyrarfjalli og hrynja yfir bæinn? Og þar með verði bundinn endi á alla mannabyggð á Ísafirði?“
Snemma sumars árið 1925 hefur yngsti, fegursti og jafnfram óviljugasti biskup Íslands, herra Jón Hallvarðsson, kallað til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins.
Náttúrulögmálin er skáldsaga sem gefur einstaka og karnivalíska mynd af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingartímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Hér er brugðið á leik með heimildir og sögulegar staðreyndir í hrífandi og bráðskemmtilegri sögu.
Um höfundinn:
Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld.
Hann hefur gefið út níu skáldsögur, nú síðast Náttúrulögmálin. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölda mála og komið út víða um heim. Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, frönsku Transfuge-verðlaunin (sem hann hlaut aftur fyrir Heimsku) og var bókin auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étranger. Eiríkur hefur einnig gefið út átta ljóðabækur, eina barnabók, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Þess utan hefur hann þýtt fjölda bóka, þar á meðal valin ljóð eftir Allen Ginsberg, safn erlendra framúrstefnuljóða og skáldsöguna Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem, en fyrir þá síðastnefndu hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin 2008. Nýjasta þýðing hans er Hvítsvíta eftir Athenu Farrokhzad, sem kom út árið 2017 hjá Máli og menningu.
Eiríkur hefur verið staðarskáld í Vatnasafninu á Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel, sem og í Villa Martinson í Jonsered í Svíþjóð (2015) og í AIR Krems í Austurríki (2018). Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015. Hann hefur hlotið aukaverðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör, Menningarverðlaun DV 2017 fyrir ljóðabókina Óratorrek, sérstaka viðurkenningu á kvikljóðahátíðinni Zebra Poetry Film Festival í Berlín, Sparibollann fyrir fegurstu ástarjátninguna og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma. Þá var barnabókin Frankensleikir tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022 sem og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.