Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2015

Í dag, þann 10. febrúar, er alþjóðlegi netöryggisdagurinn. Þemað í ár er „Gerum netið betra saman“ og munu yfir 100 þjóðir um allan heim standa fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag.
Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda samstarfsnetið Insafe, og yfir 80 önnur lönd munu þennan dag leiða saman ýmsa hagsmunaðila til þess að vekja athygli á og ræða netið frá ýmsum hliðum. Í tilefni dagsins vekur SAFT athygli á nýju fræðsluefni og hvetur alla skóla landsins til að fjalla um netöryggi þennan dag og nýta það efni sem til er.

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.

Á heimasíðu SAFT er að finna ýmsan fróðleik um netöryggi og eru foreldrar og forráðamenn hvattir til að kynna sér það.

Á visi.is birtist um daginn áhugaverð grein, eftir Bergþóru Þórhallsdóttur sem situr í Samfélags- og mennréttindaráði Akureyrarbæjar, sem bar yfirskriftina "Útivistarreglur" barna og unglinga á netinu þar sem hún fjallar um mikilvægi þess að foreldrar fylgist með netnotkun barna sinna. Talar hún um rafrænt foreldrarölt og mikilvægi þess að foreldrasamfélagið taki sig saman um virða "útivistarreglur" á netinu. Áhugaverður pistill sem lesa má hér.