Alþingiskosningar 25. september 2021

Alþingi Íslendinga
Mynd af vef Alþingis. Bragi Þór Jósefsson
Alþingi Íslendinga
Mynd af vef Alþingis. Bragi Þór Jósefsson

Kjördeildir  í bæjarfélaginu Fjallabyggð við Alþingiskosningarnar þann 25. september nk. verða tvær.

Kjördeild I í Ráðhúsi Fjallabyggðar, 2. hæð Gránugötu 24 Siglufirði kjósa íbúar Siglufjarðar.
Kjörfundur hefst kl. 10:00.

Í kjördeild II í húsi Menntaskólans á Tröllaskaga að Ægisgötu 13 í Ólafsfirði kjósa íbúar Ólafsfjarðar.
Kjörfundur hefst kl. 10:00.

Kjörfundi má slíta átta klukkustundum eftir að hann hefst, hafi hálf klukkustund liðið frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. 
Kjörfundi skal slitið eigi síðar en kl. 22:00.

Kjósendur skulu framvísa persónuskilríkjum sé þess óskað.

Sé kjósandi ekki fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt má hann velja sér fulltrúa til aðstoðar, enda geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð vilja sinn óþvingað þar um við kjörstjórn, ella þarf vottorð réttindagæslumanns.

Kjörskrár í Fjallabyggð vegna Alþingiskosninga þann 25. september 2021 munu liggja frammi frá 13. september nk. til sýnis í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði og bókasafninu á Ólafsvegi 4, Ólafsfirði, á auglýstum opnunartíma skrifstofu virka daga fram til 25. september.

Kjósendum er einnig bent á vefinn Þjóðskrá en þar má m.a. finna hvar kjósendur eru á kjörskrá og hvar þeir eiga að kjósa. Kjósendur eru hvattir til þess að kynna sér hvort nöfn þeirra séu á kjörskránni. Athugasemdum við kjörskrá skal beina til bæjarráðs Fjallabyggðar. 

Kjörskrá var lögð fram á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar miðvikudaginn 8. september sl. Á kjörskrá í Fjallabyggð eru 1530. Á Siglufirði eru 937 á kjörskrá og í Ólafsfirði 593.

Allt sem sérstaklega varðar alþingiskosningar 25. september 2021 er að finna hér.

Hér er einnig hægt að nálgast upplýsingar um kosningar til Alþingis og auðlesið efni þar um. Upplýsingar um kosningar er einnig hægt að nálgast á vefsíðu Alþingis, sjá eftirfarandi slóð: https://www.althingi.is/tilkynningar/nytt-efni-um-kosningar-og-kosningaurslit-a-vef-althingis og hjá landskjörstjórn,  sjá eftirfarandi slóð: https://www.landskjor.is/.

 

Yfirkjörstjórn Fjallabyggðar