Af upplýsingafundi fyrir verktaka og aðra áhugasama þann 16. desember sl.

Þann 16. desember sl. gekkst Fjallabyggð fyrir opnum upplýsingafundi fyrir verktaka og aðra áhugasama. Fundinn sátu af hálfu Fjallabyggðar Elías Pétursson bæjarstjóri og Ármann Viðarsson deildarstjóri tæknideildar. Vel var mætt á fundinn og sköpuðust góðar umræður um þau fjölmörgu verkefni sem sveitarfélagið hyggst standa að á komandi ári. 

Bæjarstjóri hafði framsögu hvar hann fór yfir helstu verkefni, tímasetningar útboða og áætluð verklok ásamt að fjalla almennt um framkvæmd útboða, regluverk því tengdu og samtal sveitarfélagsins við Bríeti leigufélag. Fram kom í framsögu bæjarstjóra að heildar fjárhæð fyrirhugaðra verkefna er rífar 600 milljónir og að áætlað umfang viðhalds eigna verði 113 milljónir, ljóst er því að mikið verður um að vera á árinu. 

Að aflokinni framsögu var spjallað um málefni fundarins og má segja bæði að nokkuð bjart hafi verið yfir fundarmönnum og að vilji sveitarfélagsins standi til að halda sambærilega fundi árlega í kjölfar samþykktar fjárhags- og framkvæmdaáætlunar. 

Slæðusýningu frá fundinum má nálgast hér.

Nú hafa fyrstu tvö verkefnin verið sett í útboðsferli, þar er annars vegar um að ræða nýtt aðstöðuhús við tjaldsvæðið í Ólafsfirði og hins vegar vinnu við breytingar á annarri hæð Suðurgötu 4 á Siglufirði, en þar mun á komandi hausti verða opnuð ný og glæsileg félagsmiðstöð fyrir unglinga í Fjallabyggð. 

Upplýsingar um ofangreind verkefni má nálgast hér að neðan.