Aðgerðaráætlun ferðaþjónustunnar í Samráðsgátt

Ferðamálastofa
Ferðamálastofa

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030.

Mikil vinna hefur verið lögð í áætlunina undanfarin misseri og eru öll hvött til að skoða tillöguna og senda inn umsagnir ef einhverju þarf að koma á framfæri. Verkefnið er opið til umsagna til 12. mars.

Nánari upplýsingar: 

Haustið 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Í því felst að hér sé arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun. Í uppfærðum stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030, eru 12 áherslur sem deilast á fjórar lykilstoðir; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti.

Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Gert var ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin yrði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024. Verkefnið í heild sinni hefur verið leitt af stýrihóp á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis og er nánari upplýsingar að finna um það á www.ferdamalastefna.is.

Starfshóparnir sjö náðu utan um helstu þætti ferðaþjónustu, þ.e. sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu.

Viðamikið samráð var haft við haghafa við gerð aðgerðaráætlunar frá maí 2023 til febrúar 2024, m.a. með fjölda vinnustofa og funda. Beint að þessari vinnu komu yfir 100 manns, og óbeint talsvert fleiri. Fyrstu drög að aðgerðum voru sett í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember 2023 og var unnið úr þeim athugasemdum sem þar bárust.

Á grunni framangreindrar vinnu liggja nú fyrir drög að tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030. Í þeim drögum koma fram 42 skilgreindar aðgerðir sem ætlað er að fylgja eftir áherslum ferðamálastefnu og þeim markmiðum sem þar koma fram. Dreifast þær á lykilstoðir ferðaþjónustu; þ.e. rannsóknir og gögn, efnahagur, samfélag, umhverfi og gestir.

Frá 14. febrúar til 6. mars standa yfir opnir umræðu- og kynningarfundir um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Í framhaldi af þeim fundum verður farið yfir ábendingar sem þar berast, sem og umsagnir úr samráðsgátt. Að því loknu verður þingsályktunartillagan fullunnin og lögð fram á Alþingi í síðari hluta mars.

 Drög að tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030

Ferðaþjónusta til 2030 - Stefna og aðgerðaáætlun