Aðalheiður hlaut Menningarverðlaun DV

Mynd: www.freyjulundur.is
Mynd: www.freyjulundur.is

Í gær, miðvikudaginn, 9. mars, voru Menningarverðlaun DV fyrir árið 2015 afhent við hátíðlega athöfn í Iðnó.
Þetta er í 37. skipti sem menningarverðlaun blaðsins eru afhent. Í ár voru verðlaunin veitt í níu flokkum auk þess sem forseti Íslands veitti sérstök heiðursverðlaun og sigurvegari úr netkosningu var verðlaunaður með lesendaverðlaunum DV.is

Í flokki myndlistar hlaut Aðalheiður S. Eysteinsdóttir verðlaunin. Aðrir sem voru tilnefndir voru: Cycle, Ferskir vindar, Ekkisens og Sequences.

Eftirfarandi umfjöllum um Aðalheiði var birt á DV.
Aðalheiður hefur haldið meira en 150 einkasýningar hér á landi og víða um heim. Tréskúlptúrar hennar eru einstakir og auðþekkjanlegir, og skúlptúrinnsetningar hennar verða sífellt umfangsmeiri en dómnefnd vill sérstaklega draga fram atorkusemi hennar við að efla og halda saman fjölbreyttu listalífi á Norðurlandi. Aðalheiður hefur haldið utan um starfsemi í Listagilinu á Akureyri, í Freyjulundi í Eyjafirði, Verksmiðjunni á  Hjalteyri þar sem haldnar hafa verið sýningar, tónleikar og alls konar listviðburðir. Hún hefur líka fest kaup á gamla Alþýðuhúsinu í heimabæ sínum á Siglufirði og skapað þar vettvang fyrir fjölbreytta starfsemi, meðal annars listahátíðina Dóbíu, Gjörningahátíð á föstudaginn langa og alþjóðlega samstarfsverkefnið Reiti.  Aðalheiður hefur með óeigingjarnri vinnu og smitandi áhuga virkjað eldri sem yngri með sér og myndlistarlífið fyrir norðan hefur notið hennar og blómstrað síðustu árin.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir fæddist á Siglufirði 23.júní 1963 og bjó þar til 1986, þá fluttist hún til Akureyrar. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1989-93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að vera athafnasamur myndlistamaður. Aðalheiður starfrækti Kompuna, gallerí á Akureyri í 8 ár, tók virkan þátt í uppbyggingu "Listagilsins" á Akureyri og er einn af stofnenda Verksmiðjunar á Hjalteyri. Árið 2000 hóf Aðalheiður þátttöku í Dieter Roth akademíunni og mun halda þeirri samvinnu áfram. Í desember 2011 keypti Aðalheiður Alþýðuhúsið á Siglufirði og hefur komið upp vinnustofu þar. Einnig stendur hún fyrir mánaðlegum menningarviðburðum og hefur endurvakið Kompuna í litlu rými þar. Vinnustofur og heimili Aðalheiðar er í Freyjulundi, 601 Akureyri og í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Fjallabyggð óskar Aðalheiði innilega til hamingju með verðlaunin.