Áætlað að útsendingar N4 náist í Fjallabyggð í júní nk.

N4 Sjónvarp Norðurlands hóf útsendingar á landsvísu þann 12. mars. N4 verður á dreifikerfi Digital Ísland á rás 15 og verður fyrsta sjónvarpsstöðin á landsbyggðinni til að hefja útsendingar á landsvísu. Eins og íbúar Fjallabyggðar vita náum við hér í Fjallabyggð takmörkuðum fjölda rása Digital Íslands og munum við því ekki ná útsendingum N4 enn um sinn að minnsta kosti.

Samkvæmt samtali við Þorvald Jónsson framkvæmdastjóra N4 getum við hins vegar vænst breytinga á þessu. Samkvæmt samningi N4 við Digital Ísland mun dreifigeta Digital Íslands stækka fyrr en áætlað var og því munu íbúar Fjallabyggðar ná útsendingum N4 og fleiri stöðvum Digital Íslands í júní nk.

Auk fjölda ruglaðar sjónvarpsstöðva sem hægt er að kaupa áskrift af hjá Digital Ísland er þar að finna nokkrar óruglaðra sjónvarpsstöðvar eins og N4. Þó er einungis hægt að ná þessum stöðvum sé maður með afruglara frá Digtal Ísland eða með sjónvarp með sérstökum digital móttaka (DVB). Þangað til verðum við hins vegar að láta okkur nægja að horfa á þætti N4 á vefsjónvarpi þeirra á heimasíðu stöðvarinnar http://www.n4.is/.

Fastir liðir til að byrja með verða fréttir alla virka daga og þátturinn Að Norðan, þáttur um Norðlendinga og norðlensk málefni á mánudögum til fimmtudaga. Á föstudögum verður síðan Föstudagsþátturinn sem er umræðuþáttur um hitamál líðandi stundar. Þar verður einnig fjallað um  tónlist, afþreyingu, menningu og annað sem tengist norðlensku mannlífi.