14.09.2006
Fréttatilkynning Ævintýrið SkrapatunguréttStóðsmölun og réttir í A-HúnavatnssýsluDagana 16. og 17. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur geta leigt hesta hjá heimamönnum eða mætt með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 16. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Athugið að ekki er aðstaða til að geyma hross yfir nótt á Strjúgsstöðum að þessu sinni. Aðstaða verður til að geyma bíla og taka niður hross við sandnámu við Strjúgsstaði (norðari afleggjari). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal er hópurinn um kl 14. Þar hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu. Ferðamannafjallkóngur líkt og í fyrra verður Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Honum til halds og trausts að þessu sinni verður Ferðamannafjalldrottningin Jóna Fanney Friðriksdóttir bæjarstjóri á Blönduósi. Þau eru bæði heimavön á þessum slóðum og munu sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín. Á laugardagskvöldinu kl 20 verður grillað við reiðhöllina á Blönduósi. Þeir sem vilja vera með í grillpartýinu er beðnir að panta fyrir hádegi föstudaginn 15.september í síma 898 5695 eða 891 7863. Að sjálfsögðu verður spilað á gítar og sungið að hestamannasið. Partýstemningin nær svo hámarki á dansleik síðar um kvöldið í Félagsheimilinu Blönduósi. Þar leikur fyrir dansi stuðhljómsveitin Signýja. Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 11. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna karlar og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum.Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað, sungið og skemmt sér að sið Íslendinga. Allir gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um gistimöguleika eða aðra þjónustu og bókanir í stóðsmölun, hjá Upplýsingamiðstöð ferðamála á Blönduósi: ferdamal@simnet.is , sími 452 4520 og í síma 891 7863 eða í netfangi haukur@ssnv.is.