23.11.2006
Eftirfarandi ályktun var samþykkt með 9 atkvæðum á bæjarstjórnarfundi 21. nóvember 2006 "Bæjarstjórn Fjallabyggðar skorar á Vegagerðina að endurskoða útboð á snjómokstri milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Sá verktaki sem þjónað hefur Ólafsfirðingum í áratugi hefur mikla reynslu og mikinn tækjakost til þess að sinna þessu verkefni. Alltaf hefur verið hægt að treysta á aðstoð hans ef þurft hefur.Það er ómetanlegt á sjóþungum stað eins og hér um ræðir.Það er miklu meira virði en 100.000 krónur á ári!Bæjarstjórn telur ekki forsvaranlegt að mokstur sé ekki frá endastöð á Ólafsfirði.Er þetta ekki síst öryggisatriði ef um sjúkraflutninga er að ræða. Þetta kom glögglega í ljós þegar sjúkrabíll með sjúkling festist í Ólafsfjarðarmúla í fyrstu snjóum vetrarins og þurfti björgunarsveit til aðstoðar.Miðað við þá þjónustu sem verið hefur á mörgum undanförnum árum þá er ljóst að hér verður um skerðingu á þjónustu að ræða og vegurinn mun opnast seinna en verið hefur. Það sýndi sig strax þriðjudaginn 14. nóvember sl. að vegurinn opnaðist ekki fyrr en kl. 14.00 um daginn.Hér er ekki verið að kasta rýrð á þann verktaka sem nú er með snjómoksturinn, heldur aðeins verið að benda á staðreyndir og þær áhyggjur sem íbúar Fjallabyggðar hafa vegna þessara breytinga. Jafnframt krefst Bæjarstjórn Fjallabyggðar þess að endurskoðaðar verði mokstursreglur á milli byggðakjarnanna Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og að Lágheiði verði mokuð a.m.k. tvisvar í viku þegar veður leyfir.Mikil samskipti þurfa að eiga sér stað milli staðanna bæði í stjórnsýslu og af hálfu verktaka við Héðinsfjarðargöng.Öxnadalsheiðarleiðin milli staðanna er rúmlega 500 km fram og tilbaka, en leiðin yfir Lágheiði aðeins 120 km. Það munar um minna! "