Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar þann 28. ágúst sl. var eftirfarandi tillaga samþykkt:
“Bæjarráð Siglufjarðar samþykkir að láta kanna möguleika á því að reka þjónustuhús við höfnina. Kannaðir verði möguleikar á að byggja húsnæði eða kaupa húsnæði sem hentar fyrir þjónustuna. Hugmyndin er sú að í slíku húsnæði verði aðstaða fyrir aðgerð á fiski, verkum grásleppuhrogna, beitingaaðstaða og kælir fyrir fisk.
Bæjarráð samþykkir að fela Hafnarstjóra og atvinnufulltrúa að fylgja málinu eftir í Hafnarstjórn og koma nauðsynlegri vinnu af stað hið fyrsta.
”Greinargerð:
Í sumar hefur nokkuð mikið borið á því að bátar hafa sótt til Siglufjarðar til að gera út á línu og handfæri. Aðstaða fyrir þá aðkomubáta og heimabáta sem héðan gera út er af skornum skammti og vantar tilfinnanlega bætta aðstöðu. Með tilkomu jarðganga á milli Siglufjarðar og Eyjafjarðarsvæðisins innan fárra ára er ljóst að auknir möguleikar skapast fyrir útgerð aðkomubáta frá Siglufirði og er rétt að Siglufjarðarhöfn verði þá tilbúin fyrir aukin umsvif jafnt heimabáta og þeirra báta sem gera héðan út tímabundið.”
Hafnarstjórn hefur tekið vel í þessar hugmyndir um athugun á rekstri þjónustuhúss við höfnina og hefur Hafnarstjóra verið falið að skoða málið í samráði við atvinnumálafulltrúa.