74,2 milljónum úthlutað til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar

26. júní sl. úthlutaði Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra, 74,2 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings. Sjóðurinn er nýr og tekur við hlutverkum Menningarsamnings Eyþings, Vaxtarsamnings Eyjafjarðar og Vaxtarsamnings Norðausturlands. Hann er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019 sem undirritaður var í febrúar sl.
Sjóðurinn er samkeppnissjóður og veitir verkefnastyrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála.

Uppbyggingarsjóði bárust samtals 169 umsóknir, þar af 61 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 108 til menningar. Sótt var um 170,8 milljónir, þar af 83,4 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 87,4 til menningarstarfs.
Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 94 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 74,2 mkr. Heildarkostnaður við verkefnin er 450,8 mkr.

Í Fjallabyggð fá eftirtaldir aðilar styrk:
Verkefnastyrkir til menningar:
- Brák Jónsdóttir - Hústaka, sem er listahátíð ungs fólks og fer fram í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. 100.000 kr.
- Þórarinn Hannesson - Margbreytilegur einfaldleiki, 100.000 kr.
- Ljóðasetur Íslands - Lifandi viðburðir á setrinu, 200.000 kr.
- Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, 600.000 kr.
- Reitir, alþjóðlegt samvinnuverkefni skapandi fólks, 900.000 kr.
- Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði, 1.000.000 kr.

Stofn- og rekstrarstyrkir til menningar:
- Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, 1.400.000 kr.

Verkefnastyrkir til atvinnuþróunnar og nýsköpunar:
Fjallabyggð ásamt Dalvíkurbyggð og Akureyrarstofu fá 3.000.000 kr. vegna tveggja verkefna; Trölli og Trölla á leið um Tröllaskagann og Arctic Circle Route.