Fjölbreytt hátíðardagskrá verður í Fjallabyggð á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Á Siglufirði verður hátíðarathöfn við minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar við Siglufjarðarkirkju. Að henni lokinni eru gestir hvattir til að ganga að Þjóðlagasetri Sr. Bjarna þar sem boðið verður upp á kaffi og konfekt. Hið árlega Kaffihlaðborð Blakfélags Fjallabyggðar verður haldið í Einingu-Iðju á Siglufirði frá kl. 15:00-17:00 og í ár mun UMF Glói endurvekja 17. júní hlaupið á Malarvellinum á Siglufirði fyrir krakka á fædd 2006-2013 og hefst hlaupið kl. 10:30. Sýning Kristínar Gunnlaugsdóttur verður opin í Kompunni í Alþýðuhúsinu en sýningin var opnuð þann 8. júní sl. og verður hún opin frá kl. 14:00-17:00 fram til 22. júní nk. Hin árlega ljósmyndasýning á Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica á Siglufirði verður formlega opnuð en þar verða til sýnis myndir eftir Ragnar Axelsson og Leif Þorsteinsson. Opið verður á safninu þennan dag frá kl. 13.00-17:00 en safnið verður opið alla daga í sumar frá kl. 13:00-16:00. Aðgangur að safninu er ókeypis. Ljóðasetur Íslands verður opið milli 14:00-15:00 og þar mun Þórarinn Hannesson flytja eigin lög við ljóð eftir Siglfirðinga. Þjóðlagasetur Sr. Bjarna er opið og boðið verður upp á kaffi og Lýðveldisköku í tilefni dagsins.
Við Menningarhúsið Tjarnarborg verður glæsileg hátíðardagskrá þar sem í boði verða m.a. leiktæki, hoppukastalar, geimsnerill, stærsta vatnsrennibraut landsins opin (Skíðastökkpallurinn) og margt fleira fyrir alla fjölskylduna.
Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að mæta og fagna þessari hátíðarstund saman.
Í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni verður gestum í Fjallabyggð boðið upp á Lýðveldisköku við Þjóðlagasetur sr. Bjarna um kl. 12:15 og við Tjarnarborg kl. 15:00.
Lýðveldiskakan er í boði Landssambands bakarameistara og forsætisráðuneytisins.
Dagskráin er öll aðgengileg hér (pdf)
75 metra Lýðveldiskaka
Landssamband bakarameistara hefur hannað Lýðveldisköku í samstarfi við forsætisráðuneytið í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins. Boðið verður upp á kökuna í miðbæ Reykjavíkur og verður hún 75 metrar á lengd. Þá verður einnig boðið upp á a kökuna í þeim bæjarfélögum þar sem félagsmenn í Landssambandi bakarameistara reka bakarí og verður sú kaka 75 metrar á lengd sem skiptist niður á viðkomandi bæjarfélög.
Kakan verður í boði á eftirtöldum stöðum, í samvinnu við sveitarfélög á hverjum stað: Reykjavík, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Fjallabyggð, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Hveragerði og Reykjanesbæ.
Lýðveldiskakan er er þriggja botna mjúk súkkulaðikaka með karamellu- rjómaostakremi og Odense marsipani.