Stjórn Hornbrekku

28. fundur 07. maí 2021 kl. 12:00 - 13:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • S. Guðrún Hauksdóttir varaformaður, D lista
  • Þorsteinn Þorvaldsson aðalmaður, D lista
  • Helga Jónsdóttir aðalmaður, H lista
  • Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir formaður I lista
  • Sæbjörg Ágústsdóttir aðalmaður, I lista
Starfsmenn
  • Hjörtur Hjartarson deildarstjóri félagsmáladeildar
  • Birna Sigurveig Björnsdóttir hjúkrunarforstjóri og forstöðumaður Hornbrekku
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Hjörtur Hjartarson deildarstjóri félagsmáladeildar

1.Starfsemi Hornbrekku 2021

Málsnúmer 2101018Vakta málsnúmer

Hjúkrunarforstjóri fór yfir starfsmannamál heimilisins, vaktatafla og fyrirkomulag afleysinga liggur fyrir. Skipulag heimsókna á Hornbrekku frá 3. maí eru með þeim hætti að fjórir ættingjar mega koma í heimsókn og eru börn talin með. Frekari afléttingar verða þegar starfsfólk hefur fengið seinni bólusetninguna. Starfsfólk Hornbrekku keypti skenk á vegginn í Norður-stofunni og færir stjórnin þeim bestu þakkir fyrir.

2.Greining á rekstri hjúkrunarheimila

Málsnúmer 2011056Vakta málsnúmer

Verkefnastjórn sem heilbrigðisráðherra skipaði til að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila hefur skilað ráðherra skýrslu sinni. Verkefnastjórnin var skipuð af ráðherra í samræmi við samkomulag sem gert var í lok árs 2019 milli Sjúkratrygginga Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, þegar undirritaðir voru samningar um þjónustu hjúkrunarheimila til tveggja ára. Greiningin byggist einkum á svörum rekstraraðila um reksturinn, kostnaðar- og tekjuliði, þjónustuna sem veitt er, notendur þjónustunnar, auk ýmissa fleiri breyta sem áhrif hafa á reksturinn.
Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi. Samtals nam halli áranna 2017-2019 1.497 milljónum króna. Að frádregnu framlagi sveitarfélaga var hallinn 3.500 milljónir króna.
Til viðbótar við undirliggjandi rekstrarvanda sem skýrslan dregur fram taka þann 1. maí nk. gildi ákvæði kjarasamninga um styttingu vinnutíma vaktavinnufólks. Ljóst er að þetta mun hækka kostnað hjúkrunarheimila verulega.

3.Kostnaður vegna styttingar vinnuvikunnar - hjúkrunarheimili á samning við SÍ

Málsnúmer 2105015Vakta málsnúmer

Sjúkratryggingar Íslands upplýsa að SÍ hefur fundað með Heilbrigðisráðuneytinu og óskað nánari upplýsinga um meðferð kostnaðar vegna styttingar vinnuvikunnar á hjúkrunarheimilum. SÍ greiðir fyrirfram til hjúkrunarheimila fyrir þeirra þjónustu. Sá kostnaður sem kann að falla til vegna styttingar vinnuvikunnar kemur ekki til gjalda fyrr en í lok maí, nema um sé að ræða starfsfólk á fyrirfram greiddum launum, sem er undantekning.

Fundi slitið - kl. 13:00.