Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

187. fundur 20. júlí 2015 kl. 17:00 Ólafsvegi 4, Ólafsfirði
Nefndarmenn
  • Guðmundur J Skarphéðinsson formaður, F lista
  • Hilmar Þór Elefsen varaformaður, S lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, S lista
  • Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir aðalmaður, D lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, B lista
  • Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar
  • Íris Stefánsdóttir tæknifulltrúi
Fundargerð ritaði: Íris Stefánsdóttir Tæknifulltrúi

1.Breytingar á húsnæði við Hlíðarveg 20 Siglufirði

Málsnúmer 1505046Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingum á húsnæði gamla gagnfræðaskólans við Hlíðarveg 20 var grenndarkynnt 2.júní - 1.júlí 2015. Fimm athugasemdir bárust auk umsagnar frá Minjastofnun Íslands. Lagt fram minnisblað Ívars Pálssonar hrl. varðandi höfundarétt. Einnig lagðar fram nýjar teikningar frá Elínu Þorsteinsdóttur af breyttri hönnun hússins, þar sem tekið er mið af athugasemdum Minjastofnunar Íslands.

1. Athugasemdir Minjastofnunar Íslands dags. 4.júní 2015: Í bréfi stofnunarinnar kemur fram að húsið falli ekki undir ákvæði laga um menningarminjar. Fram kemur að húsið hafi listrænt gildi sem höfundarverk Guðjóns. Þá kemur fram að þó Minjastofnun sé hlynnt aðlögun húsa að nýju hlutverki sé álitamál hvort réttlætanlegt sé að breyta húsinu með svo afgerandi hætti sem tillagan gerir ráð fyrir með takmarkaðri tilfinningu fyrir einkennum hússins. Útfærslur á svölum og þakkvistum séu óásættanlegar á svo stílhreinu húsi. Leggur stofnunin til ákveðnar breytingar á þeirri hönnun sem grenndarkynnt var.

Svar: Þar sem húsið fellur ekki undir ákvæði laga um menningarminjar hefur umsögn stofnunarinnar aðeins leiðbeinandi. Nefndin tekur undir þær ábendingar Minjastofnunar að svalir verði hafðar hóflegar að stærð og gangi ekki fyrir horn hússins, enda taka nýjar teikningar mið af því.

2. Athugasemd frá Ástu Guðjónsdóttur hdl. fyrir hönd eigenda hluta eignarinnar að Vallargötu 3. Dags. 1.júlí 2015: Umbjóðendur Ástu gera sérstaklega athugasemd við byggingu svala sem teiknaðar eru í suðurenda og fyrir miðju á austurhlið hússins. Umræddar svalir slúta yfir lóðarmörk Vallargötu 3, fella aukinn skugga á lóðina og fela í sér verulega röskun á næði og nýtingar eignar þeirra. Lagt er til að svalir á suðurenda austurhliðar skólahússins, verði færðar á suðurhlið hússins skv. meðfylgjandi teikningu.

Svar: Nefndin tekur undir athugasemdir eigenda Vallargötu 3. Á nýjum teikningum sem lagðir eru fram, eru svalir minnkaðar á austurhlið. Aðeins eru teiknaðar svalir í einu gluggabili fyrir miðju hússins á 2. og 3.hæð auk kvistar á rishæð.

3. Athugasemd frá Pétri Hrólfssyni dags. 24.6.2015: Í athugasemd kemur fram að hvergi á uppdráttum grenndarkynningarinnar kemur fram hvar áætluð bílastæði eru fyrir íbúðir við Hlíðarveg 20. Spurt er hvort allir bílar leggi á Hlíðarvegi eða hvort gert sé ráð fyrir bílastæðum við Vallargötu.

Svar: Framkvæmdaraðili skal útbúa bílastæði skv. tillögu tæknideildar sem var samþykkt á fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 25. febrúar sl. Þar er gert ráð fyrir 16 bílastæðum innan lóðar Hlíðarvegar 20 og 6 bílastæðum til viðbótar við spennistöðina á Hlíðarvegi 21. Ef áætlaður fjöldi stæða uppfyllir ekki eftirspurn er möguleiki á að fjölga stæðum á óbyggðu svæði sunnan við Hlíðarveg 16.

4. Athugasemd frá Hönnu Björg Hólm dags. 11.6.2015: Athugasemd er gerð við áætlaðar svalir á 2. og 3. hæð á austurhlið hússins. Húsið sé byggt á lóðarmörkum húsa við Vallargötu og svalirnar gangi ansi nálægt henni sem íbúa við Vallargötu.

Svar: Á nýjum uppdráttum sem lagðir eru fram, er dregið úr stærð og fjöldi svala á austurhlið. Aðeins eru teiknaðar svalir í einu gluggabili fyrir miðju hússins á 2. og 3.hæð auk kvistar á rishæð.

5. Athugasemd frá Halldóri Þ. Halldórssyni og Hönnu Björnsdóttur dags. 30.júní 2015: Athugasemdir eru gerðar við breytingar á húsnæðinu í 14 íbúðir og þær ekki sagðar í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Þá var lýst yfir áhyggjum af fjölgun íbúa á Hlíðarveginum með tillit til bílastæða og umferðaraukningu sem sú fjölgun myndi hafa í för með sér, bæði við Hlíðarveg og Vallargötu. Bílastæðavandi væri ekki leystur með þeim tillögum sem lagðar voru fram nýlega. Áætlaðar svalir eru sagðar hafa veruleg áhrif á notkun nærliggjandi lóða og að verulegt ónæði hljótist af. Þá er talið að fleirum hefði átt að gefast kostur á að gera athugasemdir við áætlaða breytingu húsnæðisins vegna áhrifa aukinnar bílaumferðar. Með því að reisa kvisti vestan megin á húsið og svalir austan megin sem ná fyrir norður- og suðurenda þess, er verið að breyta útliti þess verulega, sem hafa áhrif á götumyndina og mynd bæjarins. Höfundaréttur Guðjóns Samúelssonar og Bárðar Ísleifssonar er ekki virtur verði umsókn um breytingu á húsinu samþykkt, vísað í 43.grein höfundalaga nr.73/1972.

Svar: Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028 er Hlíðarvegur 20 á svæði sem flokkast undir blandaða landnotkun íbúðarsvæðis og svæðis fyrir þjónustustofnanir. Breytt notkun skólahúsnæðis yfir í íbúðarhúsnæði er því í samræmi við aðalskipulag. Gert er ráð fyrir 16 bílastæðum innan lóðar Hlíðarvegs 20 og 6 bílastæðum til viðbótar við spennistöðina á Hlíðarvegi 21. Ef áætlaður fjöldi stæða annar ekki eftirspurn er möguleiki á að fjölga stæðum á óbyggðu svæði sunnan við Hlíðarveg 16. Varðandi aðgengi að áætluðum bílastæðum austan húss við Vallargötu er það í höndum sveitarfélagsins að sjá um endurbætur á götunni. Skipulagsnefnd skal leggja mat á hverjir geta talist hagsmunaaðilar skv. skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Við mat á það hverjir voru taldir eiga mestra hagsmuna að gæta við breytingar á skólahúsinu var ákveðið að húseigendur á aðliggjandi lóðum, og með mesta nálægð við byggingu yrði kynnt tillagan. Umferð er ekki talin aukast frá því sem áður var þegar húsnæðið var nýtt sem skóli.
Í 6.7.1 gr. byggingarreglugerðar nr.112/2012 segir að allar íbúðir ofan jarðhæðar skulu hafa svalir. Nefndin leggur þó áherslu á að í hönnuninni sé stærð svala stillt í hóf og taki tillit til nærliggjandi umhverfis. Í nýjum uppdráttum sem lagðir eru fram, er dregið úr stærð og fjöldi svala á austurhlið. Aðeins eru teiknaðar svalir í einu gluggabili fyrir miðju hússins á 2. og 3.hæð auk kvistar á rishæð. Ekki er gert ráð fyrir að reisa kvist vestan megin á húsið, heldur á það austanvert. Varðandi höfundarétt er vísað í niðurstöðu nefndarinnar.

6. Athugasemd frá Jónasi Ragnarssyni dags. 25.júní 2015. Í athugasemd Jónasar Ragnarssonar kemur fram að hús Gagnfræðaskólans hafi verið byggt á árunum frá 1951-1957. Húsið teiknuðu arkitektarnir Guðjón Samúelsson (f.1887, d. 1950) og Bárður Ísleifsson (f.1905, d. 2000). Höfundaréttur þeirra er ótvíræður og enn i fullu gildi. Þess vegna er það skylda bæjaryfirvalda að leita álits erfingja þeirra á hvers konar breytingum á húsinu, ekki síst varðandi ytra útlit þess. Áætlaðar svalir eru til mikilla lýta og óþarflega stórar ef tilgangur þeirra er flóttaleið í eldsvoða, enginn tilgangur er með svölum á norðurhlið. Þakkvistur í stærra lagi. Íbúðirnar 14 kalla á meira en 20 bílastæði sem eru ekki til staðar á lóð hússins. Talið er að aukinn ágangur verði á þau bílastæði sem tilheyra nálægum fasteignum. Fara verður varlega í allar útlitsbreytingar, bæði vegna höfundaréttar og vegna þess hve húsið er áberandi.

Svar: Varðandi athugasemd um höfundarétt er vísað í niðurstöðu nefndarinnar. Nefndin gerir kröfu um að stærð áætlaðra svala sé stillt í hóf og taki þannig tillit til nærliggjandi umhverfis. Í nýjum uppdráttum sem lagðir eru fram, er dregið úr stærð og fjöldi svala á austurhlið. Aðeins eru teiknaðar svalir í einu gluggabili fyrir miðju hússins á 2. og 3.hæð auk kvistar á rishæð. Tilgangur svala á norðurhlið er að uppfylla 6.7.1 gr. byggingarreglugerðar nr.112/2012 en þar segir að allar íbúðir ofan jarðhæðar skulu hafa svalir. Gert er ráð fyrir 16 bílastæðum innan lóðar Hlíðarvegs 20 og 6 bílastæðum til viðbótar við spennistöðina á Hlíðarvegi 21. Ef áætlaður fjöldi stæða annar ekki eftirspurn er möguleiki á að fjölga stæðum á óbyggðu svæði sunnan við Hlíðarveg 16.

Niðurstaða:

Lagt fram minnisblað Ívars Pálssonar hrl. varðandi höfundarétt. Einnig lagðar fram teikningar frá Elínu Þorsteinsdóttur af breyttri hönnun hússins frá því sem grenndarkynnt var. Þar er tekið mið af athugasemdum Minjastofnunar Íslands sem lutu að því að taka tillit til hönnunar hússins og höfundareinkenna höfunda þess.
Í minnisblaði Ívars Pálssonar hrl. dags. 16.7.2015 kemur m.a. fram:

Í II. kafla höfundarlaga nr.73/1972 er fjallað um takmarkanir á höfundarétti. Í 13. gr. eru gerðar takmarkanir á höfundarétti hvað varðar bygginga- og nytjalist:

Nú nýtur mannvirki verndar eftir reglum um byggingarlist, og er eiganda þó allt að einu heimilt að breyta því án samþykkis höfundar, að því leyti sem það verður talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum.
Heimilt er án samþykkis höfundar að breyta munum, sem verndar njóta eftir reglum um nytjalist.

Ljóst er að byggingarlist nýtur verndar skv. ákvæðum lagana með ákveðnum takmörkunum þó. Spurningin er hinsvegar hvað fellur undir það hugtak. Í greinargerð með lögunum segir eftirfarandi um það álitamál:

"Byggingarverk falla undir vernd laganna, en þó vitanlega háð því almenna skilyrði, að þau geti talist til listarverka. Hér til heyra ekki eingöngu hús, heldur og önnur mannvirkjagerð, ef í henni kemur fram sjálfstæð listsköpun. M.a. hefur skrautgarðagerð verði talin til byggingarlistar (arkitektur). Verndin nær einnig til teikninga og líkana af byggingum, með því skilyrði sem hér var greint. Einstakir hlutar af byggingum, bæði hið innra og hið ytra, geta og notið sjálfstæðrar verndar, hvort sem byggingin er vernduð í heild eða ekki, t.d. sérstakar gerði súlna eða turna, veggskreytingar, myndskreyttar rúður o.s.frv."

Í grein um höfundarrétt arkitekta í 1. tbl. Úlfljóts frá 1990 segir Ragnar Aðalsteinsson eftirfarandi (bls. 9) um þetta :

"Almennt eru þó ekki gerðar miklar kröfur til andlegar sköpunar og frumleika til að verk teljist uppfylla skilyrði verndar að höfundalögum.
Þetta á þó ekki við á sviði byggingarlistar. Óumdeilt er, að á því sviði eru gerðar strangari kröfur en ella. Að þessu leyti er skyldleiki með byggingarlist og nytjalist og reglum um nytjalist verður oft með einum eða öðrum hætti beitt um byggingarlist."

Í grein sinni leitast Ragnar við skýra hvernig líklegt sé að túlka beri 13. gr. höfundalaganna:

"Ég sé fyrir mér möguleika á að túlka 13. gr. höfundalaganna nokkuð mismunandi eftir því hvers konar mannvirki er um að ræða. Á því leikur enginn vafi, hvorki í hugum þeirra sem láta gera mannvirkin né heldur í hugum þeirra sem þau hanna, arkitekta, að sumum mannvirkjum, þ.m.t. húsum, er einungis ætlað nytjahlutverk og ekkert annað, en öðrum mannvirkjum er jöfnum höndum ætlað að þjóna nytja- tilgangi og fagurfræðilegum tilgangi. Meðal mannvirkja í síðari flokknum eru hvers kyns opinberar byggingar sem tengjast menningar- og listastarfsemi eða eru reistar til minningar um tiltekna atburði eða persónur í sögu þjóðar. Dæmi um þennan flokk mannvirkja tel ég vera Þjóðleikhús, Háskóla íslands, kirkjur ýmsar, Norrænahúsið, Hnitbjörg og mörg fleiri. Dæmi af fyrri flokknum eru ýmsar vörugeymslur og iðnaðarhús, þar sem eigandinn leggur einungis áherslu á sem lægstan kostnað og sem mesta nýtingu fyrir fyrirhugaða starfsemi."



Í því máli sem hér um ræðir lítur álitaefnið að skólahúsi sem hætt hefur verið að nota sem slíkt. Eigandi hússins hyggst breyta því í íbúðarhúsnæði. Það kallar á nauðsynlegar breytingar á innra fyrirkomulagi og breytingar á útliti hússins skv. þeirri tillögu sem grenndarkynnt var. Bygging gagnfræðaskólans hefur frá upphafi verið bæjarprýði þar sem það stendur í hlíð Siglufjarðar. Það hefur þó fyrst og fremst verið ætlað að þjóna þeim nytja tilgangi að vera skólahús.
Nefndin fagnar nýrri tillögu að útliti hússins og telur þær breytingar sem gerðar hafa verið, koma til móts við framkomnar athugasemdir.
Við breytingu á húsnæðinu úr skólahúsi í íbúðarhúsnæði er nauðsynlegt að útbúa svalir til að uppfylla kröfu í 6.7.1 gr. byggingarreglugerðar nr.112/2012 þar sem segir að allar íbúðir ofan jarðhæðar skulu hafa svalir. Varðandi kvist á rishæð hússins þjónar hann þeim tilgangi að gera rishæðina íbúðarhæfa og gerir nefndin ekki athugasemd við hann. Nefndin telur breytta notkun hússins ekki auka umferð frá því sem áður var þegar húsið var nýtt sem skólahúsnæði heldur þvert á móti draga úr umferð. Að ofansögðu er það túlkun nefndarinnar á höfundarréttarlögum nr. 73/1972 að hér eigi við 13.grein sem tilgreind er hér að ofan og munu breytingarnar því ekki vera háðar höfundarrétti. Tilkynna skal handhöfum höfundaréttar um samþykkt byggingar áformanna.

Samþykkt með fjórum atkvæðum framlagðar teikningar, með áorðnum breytingum frá þeim sem grenndarkynntar voru. Deildarstjóra tæknideildar er falið að ganga frá afgreiðslu byggingarleyfis. Vísað til staðfestingar í bæjarráði.

Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir bókar: Undirrituð fagnar þeim breytingum sem gerðar hafa verið á teikningum af húsnæði gagnfræðaskólans að Hlíðarvegi 20 Siglufirði en með þeim hefur verið tekið tillit til athugasemda nágranna (grenndarkynning) og Minjastofnunar. Undirrituð harmar aftur á móti að ekki skuli hafa verið leitað eftir samþykki handhafa höfundaréttar fyrir fyrirhuguðum breytingum eins og meginreglur höfundalaga gera ráð fyrir.

2.Ástand húss við Hverfisgötu 17 Siglufirði

Málsnúmer 1506013Vakta málsnúmer

Á 185. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 10.júní sl., var tæknideild falið að senda eiganda úrbótabréf þar sem hann er hvattur til að gera nauðsynlegar úrbætur á fasteign sinni innan ákveðins tíma. Ella muni verða lagðar dagsektir á viðkomandi skv. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Lagt fram bréf Þóris Hákonarsonar þar sem tilkynnt eru nýleg eigendaskipti á húsinu. Nýr eigandi hyggst ráðast í framkvæmdir á þessu ári og mun framkvæmdaáætlun liggja fyrir eigi síðar en 1. september 2015.

Framkvæmd dagsekta er frestað til 1.september 2015.

Fundi slitið.