Lögð fram áskorun, dags. 8. mars 2024, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem send var á allar sveitarstjórnir landsins. Í henni kemur fram að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi skrifað undir yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga. Yfirlýsingin var gerð til að greiða fyrir gerð langtímakjarasamninga á vinnumarkaði með það að markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu.
Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að sveitarfélögin komi að því á samningstímanum, ásamt ríkinu, að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og að útfærð verði leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans. Komi til þess mun ríkið greiða kostnaðarþátttöku sem gæti á landsvísu numið 4,0 milljörðum. Fram kemur að ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga muni útfæra þetta og mun vinna við það fara af stað á næstu dögum og verða nánari upplýsingar veittar þegar nær dregur. Þá er því beint til sveitarstjórna að endurskoða gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um síðustu áramót er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Miða skuli við að hækkun þessa árs verði ekki umfram 3,5%. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.
Fjallabyggð mun nú hefja endurskoðun á gjaldskrám sínum til samræmis við það samkomulag sem gert var í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Bæjarstjóra er falið að koma með tillögu að uppfærðum gjaldskrám sem tengjast barnafjölskyldum og fólki í viðkvæmri stöðu þar sem hækkanir umfram 3,5% eru leiðréttar. Bæjarstjóra er einnig falið að leita umsagnar ábyrgðarnefndar viðkomandi gjaldskráa og leggja að svo búnu fyrir bæjarráð.
Fjallabyggð mun ekki skorast undan þátttöku í gjaldfrjálsum skólamáltíðum en telur óljóst á núverandi tímapunkti hvernig ríkisvaldið hyggst koma að fjármögnun og framkvæmd verkefnisins.