Mennta-og barnamálaráðuneyti hefur nú undanfarið beint sjónum sínum að málefnum tónlistarfræðslunnar. Hafin er ákveðin undirbúningsvinna vegna stefnumörkunar og heildarendurskoðunar á tónlistarfræðslu á öllum skólastigum meðal annars í samræmi við sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf og í tengslum við Menntastefnu til 2030.
Sem lið í undirbúningsvinnunni hefur ráðuneytið ákveðið að framkvæma úttekt á starfsemi tónlistarskóla sem viðurkenndir hafa verið samkvæmt 1.gr. laga nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.
Markmið með úttektinni er að safna gögnum sem þannig koma til með að styðja viðkomandi starf.
Úttektin er þannig mikilvægur hluti af undirbúningi að stefnumótun ráðuneytisins um listmenntun, sem og endurskoðun á aðalnámskrá tónlistarskóla en einnig almennu eftirlitshlutverki þess.
Úttektin felur meðal annars í sér að utanaðkomandi aðili leggur mat á starfsemi tónlistarskóla með hliðsjón af gildandi lögum og aðalnámskrá og könnun þátta svo sem stjórnun, innra starf, aðstaða, samskipti innan skóla og við aðila utan skólans, þjónusta við nemendur og starfsfólk og umbætur í skólastarfi.
Verður það m.a. gert með því að skoða fyrirliggjandi gögn um starfsemi skóla, útsendum spurningalistum, heimsóknum úttektaraðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra. Úttektirnar eru gerðar í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla og ákvæði 12.gr. laganr.75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Framkvæmdin er með þeim hætti að sendir verða spurningalistar til allra skólastjórnenda en heimsóttir verða tíu skólar. Umsjón og ábyrgð á framkvæmd úttektarinnar er í höndum ráðgjafafyrirtækisins Arcur.
Gert er ráð fyrir að úttektin fari fram á tímabilinu febrúar til apríl nk. og að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í maí 2024.
Lagt fram til kynningar