Samruni Ramma hf. og Ísfélags Vestmannaeyja hf.

Málsnúmer 2304006

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 228. fundur - 12.04.2023

Lögð fram ályktun bæjarstjórnar Fjallabyggðar vegna samruna Ramma hf. og Ísfélags Vestmannaeyja hf.

Guðjón M. Ólafsson, Arnar Þór Stefánsson, Sigríður Ingvarsdóttir og Þorgeir Bjarnason tóku til máls.
Samþykkt
Þróun sjávarútvegs á Íslandi á síðastliðnum árum hefur verið ferli mikilla breytinga. Tækninni hefur fleygt fram og störfin hafa tekið breytingum vegna framþróunar í vinnslutækni, aukinna krafna um afurðanýtingu og aukinnar samkeppni á mörkuðum erlendis.

Þann 20. mars síðastliðinn gaf Samkeppniseftirlitið grænt ljós á samruna Ramma hf. og Ísfélags Vestmannaeyja hf. sem hafði áður verið samþykktur af stjórnum félaganna tveggja í lok síðasta árs. Við samruna félaganna tveggja verður til nýtt og öflugt fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi sem mun ráða yfir um 8% af heildaraflaheimildum á Íslandsmiðum. Þrátt fyrir að ýmsir tæknilegir fyrirvara séu enn þá á samrunanum er einsýnt að af honum verður.

Sjávarútvegur er og verður einn af burðarstólpum atvinnulífs í Fjallabyggð. Samfélagið í Fjallabyggð er mjög háð því að vel gangi hjá fyrirtækjum í hafsækinni starfsemi. Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur í mörg ár átt gott samstarf við Ramma hf. og væntir þess að svo verði áfram við hið nýja sameinaða félag.

Um leið og bæjarstjórn Fjallabyggðar óskar hinu nýja öfluga félagi velfarnaðar, vill bæjarstjórnin minna á og brýna fyrir nýju félagi þá miklu samfélagslegu ábyrgð sem félagið ber gagnvart samfélaginu í Fjallabyggð.

Samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.