Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 7. september 2011 var samþykkt að framkvæmd við sjóvarnargarða á Siglunesi yrði send í grenndarkynningu til landeigenda á Siglunesi. Grenndarkynningin fór fram í október 2011 og á fundi nefndarinnar þann 16. nóvember var ákveðið að fá umsögn lögfræðings á þeim athugsemdum sem bárust.
Í framhaldi af grenndarkynningu og af fengnu áliti lögmanna á framkomnum ábendingum landeigenda gerir Umhverfis og skipulagsnefnd ekki athugasemdir varðandi umrædda framkvæmd en leggur áherslu á að framkvæmdaleyfið verði fyrst veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
· Að starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands liggi fyrir.
· Að gengið verði úr skugga um að Skipulagsstofnun geri ekki athugasemdir við grjótnámið þó ekki hafi verið gert ráð fyrir námusvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins.
· Að framkvæmdaaðili geri nánar grein fyrir þeim tækjum sem hann hyggst nota til verksins til að tryggja að sem minnstar líkur verði á raski og tímaáætlun framkvæmda.
· Að fyrir liggi tillaga frá Siglingastofnun um skiptingu kostnaðar, sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn, samkvæmt 7. gr. laga um sjóvarnir, nr. 28 frá 1997.
· Að efnisnám og flutningur efnis fari eingöngu fram á meðan nægilegt frost er í jörðu.
· Að ráðist verði í lagfæringu á grjótnámssvæði í samræmi við skilyrði Skipulagsstofnunar og eins verði annað rask á svæðinu lagfært um leið og framkvæmdum líkur.
· Að framkvæmdum verði hætt komi í ljós að ekki verði mögulegt að flytja efni um vegin án þess að valda verulegu raski eða styrkja veginn verulega.
· Að þekkt refagreni á framkvæmdasvæðinu verði merkt í samráði við Umhverfisstofnun og þess gætt að raska þeim ekki né nánasta umhverfi þeirra.
· Að ráðist verði í þær mótvægisaðgerðir sem Fornleifastofnun hefur lagt til, í samráði við stofnunina, til að tryggja að ekkert rask verði utan slóðans þar sem hann liggur um bæjarhólinn, efnisflutningar fari eingöngu fram um slóðann á meðan frost er í jörðu. Verktökum verði sérstaklega gerð grein fyrir að verið sé að aka um bæjarhól og allur akstur utan slóðans sé bannaður. Fornleifar verði merktar vel og verktökum gerð nákvæm grein fyrir staðsetningu þeirra.
· Að fyrir liggi samkomulag um eftirlit með framkvæmdinni, greiðslu kostnaðar vegna þess og mögulegs tjóns vegna framkvæmdanna.
Bæjarstjóri, Sigurður Valur Ásbjarnarson gerði grein fyrir fundargerð.