Auglýsing umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012

Málsnúmer 1110130

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 234. fundur - 01.11.2011

Lagt fram bréf frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti dags. 26. október 2011, en um er að ræða auglýsingu um umsókn um byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012.

Bæjarráð samþykkir að sveitarfélagið sæki um byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012 fyrir 9. nóvember 2011.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 35. fundur - 02.11.2011

Bæjarráð hefur samþykkt að sækja um byggðakvóta fyrir 9. nóvember n.k.

 

Bæjarráð Fjallabyggðar - 242. fundur - 10.01.2012

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur úthlutað Fjallabyggð byggðakvóta fiskveiðiárið 2011/2012. Í bréfi þeirra dags. 21.12.2011 kemur fram að Siglufirði er úthlutað 197 þorskígildistonnum en Ólafsfirði 58 tonnum.

Athygli er vakin á breytingum á nokkrum greinum reglugerðarinnar til byggðarlaga.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að reglur ráðuneytisins verði samþykktar með áorðnum breytingum en þær eru í samræmi og takti við áherslur Fjallabyggðar frá árinu 2010/2011.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 243. fundur - 17.01.2012

Lögð fram bréf frá Árna Helgasyni f.h. Útgerðar ehf. og Frey S. Gunnlaugssyni f.h. Útgerðarfélagsins Nesins ehf.

Bréfritarar óska eftir því að reglum um úthlutun á byggðakvóta verði breytt líkt og óskað var eftir á síðasta ári.

Einnig var lagt fram bréf frá Smábátafélaginu Skalla undirritað af Sverri Sveinssyni.

Ólafur Helgi Marteinsson vék af fundi við afgreiðslu þessa erindis.

Bæjarráð leggur áherslu á að byggðakvóti sé unnin í Fjallabyggð og hvetur útgerðaraðila til að standa vörð um  það sjónarmið bæjarráðs. Því mun bæjarráð ekki leggja til við bæjarstjórn breytingar í þá veru sem fram koma í óskum smábátafélagsins Skalla.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir  breytingu á 4.gr. og 6.gr. reglugerðar nr.1182 frá 21. desember 2011 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Verði orðalagi breytt þannig að í stað orðsins byggðarlags í  1. mgr. 4 gr.  komi orðið sveitarfélags, og í 1 mgr. 6. gr. komi orðið sveitarfélagsins í stað byggðarlags.

Greinarnar verða þá svohljóðandi;

4. gr.

Viðmiðanir um úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa.

Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2010 til 31. ágúst 2011. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur hlutur til þess niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.

Afli af fiskiskipum sem landað er í byggðarlagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi byggðarlags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

Réttindi til úthlutunar fylgja skipi, nema ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr. hefur endurnýjað fiskiskip sitt á því viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. og flutt aflahlutdeildir af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið getur hann í umsókn sinni óskað eftir að við úthlutun aflamarks skv. 1. mgr. sé tekið tillit til landaðs afla eldra skips umsækjanda í sömu hlutföllum og nemur þeim aflahlutdeildum sem hafa verið fluttar milli skipanna.

Ef fiskiskip er endurnýjað eftir að skipting aflamarks hefur farið fram samkvæmt 1. mgr. en áður en uppfyllt hafa verið skilyrði samkvæmt 6. gr. er heimilt að óska eftir að flytja rétt til úthlutunar aflamarks af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið, enda hafi verið gerður fyrirvari þess efnis í kaupsamningi eða afsali, hafi skip verið selt á því tímamarki.

6. gr.

Löndun til vinnslu.

Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi sveitarfélags á tímabilinu frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012 afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt skv. vigtunar- og ráðstöfunarskýrslum sem borist hafa Fiskistofu. Miða skal við allar botnfiskaflategundir sem gefinn hefur verið út þorskígildisstuðull fyrir. Einnig er það skilyrði fyrir úthlutun að ekki hafi verið flutt meira aflamark í þorskígildum talið á fiskveiðiárinu 2011/2012 frá viðkomandi fiskiskipum en flutt hefur verið til þeirra þegar afhending aflamarks á sér stað. Afla sem boðinn er upp á fiskmarkaði telst ekki hafa verið landað til vinnslu samkvæmt þessari grein. Þá er einungis heimilt að meta til viðmiðunar samkvæmt þessari grein landaðan afla sem ekki hefur áður verið metinn til úthlutunar byggðakvóta.

Með vinnslu skv. 1. mgr. er átt við flökun, flatningu, frystingu eða herslu.

Ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr. hefur endurnýjað fiskiskip sitt eftir að lokið er því viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. en áður en uppfyllt hafa verið skilyrði samkvæmt þessari grein og eftirstöðvar á rétti til úthlutunar skv. 5. mgr. 4. gr. verið flutt af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið, sbr. 3. mgr. 4. gr., skal við mat á hvort uppfyllt eru skilyrði samkvæmt þessari grein einnig heimilt að miða við landaðan afla beggja skipanna í viðkomandi byggðarlagi.

Fiskistofu er heimilt, að fengnu samþykki ráðuneytisins, að afhenda aflamark fiskiskips útá afla annars skips í eigu eða leigu sama lögaðila. Jafnframt er heimilt, að fengnu samþykki ráðuneytisins, að flytja rétt til úthlutunar aflamarks milli skipa í eigu eða leigu sama lögaðila.

Ráðherra er heimilt, að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar, að víkja frá ákvæðum þessarar greinar enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Um málsmeðferð og staðfestingu tillagna sveitarstjórna samkvæmt þessari grein skulu gilda ákvæði 3. gr.

Fiskistofu er heimilt samkvæmt beiðni útgerðaraðila að úthluta aflamarki fyrir fiskveiðiárið í fimm áföngum, 1/5 hverju sinni enda séu skilyrði um landað magn til vinnslu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar uppfyllt í sama hlutfalli á sama tíma. Hafi skilyrði fyrir úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa á grundvelli reglugerðar þessarar ekki verið uppfyllt að fullu í lok þess tímabils sem fram kemur í 1. mgr. þessarar greinar, fellur niður réttur til aflamarks í hlutfalli við það sem upp á vantar að skilyrði séu uppfyllt. Takist ekki að úthluta öllu aflamarki viðkomandi skips fyrir lok fiskveiðiársins er Fiskistofu heimilt að úthluta áunnu aflamarki fiskveiðiársins 2011/2012 á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2012, enda hafi viðkomandi skip ekki flutt meira aflamark frá skipinu en til þess í lok fiskveiðiársins á undan.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 73. fundur - 18.01.2012

Bæjarstjóri fór yfir málið frá því að það var tekið fyrir á fundi bæjarráðs sjá 242. fund bæjarráðs.

Til máls tóku Þorbjörn Sigurðsson, Sólrún Júlíusdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Afgreiðsla 243. fundar bæjarráðs staðfest á 73. fundi bæjarsjtórnar með 9 atkvæðum.

Bæjarstjóra er falið að rita ráðuneytinu bréf með rökstuðningi þar sem lögð er áhersla á að veiðireynsla í Fjallabyggð sé óháð hvar landað er innan marka sveitarfélagsins.