Vegna kurlunar á timbri óskar umhverfisfulltrúi eftir að fá að nota það til landfyllingar og landmótunar.
Nefndin hefur kynnt sér meðfylgjandi minnisblað og sér hún ekkert því til fyrirstöðu að verkið haldi áfram.
MINNISBLAÐ:
Landmótun og urðun timburkurls á Suðurtanga, Siglufirði
Vegna flutninga á timburkurli á Suðurtanga á Siglufirði ("haugasvæði") skal upplýst um tilganga og ástæðu þess að það er flutt á þennan stað. Fyrir um tveimur árum teiknaði ég upp svæðið í þeim tilgangi að gera það snyrtilegt og bænum til sóma. Á svæðinu er gert ráð fyrir að áfram verði hægt að urða múrbrot og er það sett innan manar sem gerð var í þeim tilgangi, síðar verður lokað yfir með jarðvegi og plantað í hólinn sem þar myndast. Annarstaðar á svæðinu er gert ráð fyrir runnum m.a. utan um varpsvæði sem er á því miðju og trjágróðri á suðurhluta svæðisins, trjágróður á að mynda skjól við sjóinn og draga úr sjónrænum áhrifum iðnaðarsvæðisins við aðkomuna í bæinn.
Teikningin var kynnt í skipulags- og umhverfisnefnd og var samþykkt að vinna samkvæmt henni þrátt fyrir að á aðalskipulagi, sem er í vinnslu, verður gert ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu enda er hönnunin þannig að auðveldlega á að vera hægt að ryðja til og rýma fyrir íbúðabyggð.
Tilgangurinn með því að keyra timburkurli á svæðið er sá að það verði nýtt til landmótunnar. Þá er því keyrt á svæðið það jafnað út og keyrt yfir það jarðvegslagi og sáð í með grasfræi. Þessi aðferð er viðurkennd til landmótunar þ.e. að nota trjákurl sem til fellur, ég hafði hugsað mér að nota það líka á svæði sem eru mjög óslétt og erfið í umhirðu. Á Siglufirði eru þónokkur svæði þannig sem ekki hefur verið hægt að hirða í mörg ár engum til sóma.
Sem dæmi um notagildi timburkurls er að bændur hafa fengið það á akra til jarðvegsbóta, auka kolefnis- og súrefnis magn í jarðveginum.
Besta leið til að nýta trjákurl er að flokka það og nýta til jarðvegsbóta, í landfyllingar eða til landmótunar.
Á Siglufirði hefur safnast gríðarlega mikið magn af timbri í sumar ekki síst vegna niðurrifa á húsum bæði á vegum sveitafélagsins og einkaaðila ég hef reynt að slá á kostnað við förgun á þessu timbri ef sveitafélagið ætlar að láta keyra þessu efni til förgunar þá mun það kosta rúmar 5 milljónir króna. Að auki yrðum við af dýrmætu efni sem nýtast mun til úrbóta í sveitafélaginu.
Óskað er eftir að fá að nýta þetta efni til landmótunar og til sparnaðar fyrir bæinn, meðfylgjandi er teikning af svæðinu sem unnið er eftir.
Valur Þór, umhverfisfulltrúi
Bæjarstjóri, Sigurður Valur Ásbjarnarson gerði grein fyrir fundargerð.