Tillaga um gerð deiliskipulags af lóð Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði og götureitsins þar sem skólinn stendur:
Tillaga:
"Bæjarráð felur skipulags- og umhverfisnefnd, í samvinnu við Landslag/Ómar Ívarsson, að vinna deiliskipulag af lóð Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði og götureitsins sem skólinn stendur á.
Í skipulagsvinnunni verði m.a. skoðað skuggavarp fyrirhugaðrar viðbyggingar við skólann og bílastæðamál og haft samráð við hagsmunaaðila eins og skipulagslög gera ráð fyrir.
Deiliskipulagið sé í fullu samræmi við aðalskipulag Fjallabyggðar."
Greinargerð með tillögu:
- Árið 1994 ákvað bæjarstjórn Siglufjarðar að láta teikna heilstæðan grunnskóla á þessum stað.
- Skólann átti að byggja í áföngum og vera einsetinn skóli í samræmi við lög og reglur.
- Lögð var áhersla á að byggingin væri í samræmi við götumynd, byggðamynstur og þéttleika byggðar.
- Ráðist var í fyrsta áfanga á árinu 1996 og var sá hluti tekinn í notkun 1999.
- Til að ná markmiðum sínum hafði verið ákveðið að stækka lóð skólans og fækka lóðum á umræddum lóðarreit og húsum og halda þar með þéttleika byggðar.
Sameining sveitarfélaga á Tröllaskaga varð að veruleika í júní 2006.
Í samræmi við þessa stefnu voru eftirfarandi lóðir á Siglufirði sameinaðar lóð grunnskólans árið 2007:
- Norðurgata 6 og 8.
- Vetrarbraut 3, 5, 7 og 9.
- Eyrargata 1 og 5.
Í Aðalskipulagi Fjallabyggðar sem gildir frá 2008 - 2028 hefur lóð grunnskólans verið afmörkuð sem svæði fyrir þjónustustofnanir, þar með eru fyrr nefndar lóðir sem og lóð nr. 3 við Eyrargötu.
Eftir sameiningu sveitarfélaganna kom fljótlega í ljós að ekki væri þörf á svo mikilli uppbyggingu í báðum bæjarkjörnum m.a. vegna fækkunar í árgöngum beggja vegna. Unnið var að framtíðar skipan skólamála í nýju umhverfi á árunum 2008 - 2009. Framtíðarskipan fræðslumála var samþykkt í bæjarstjórn fimmtudaginn 21. janúar 2010. Nú liggur fyrir að ekki er þörf á verulegum stækkunum í sameinuðu sveitarfélagi miðað við núverandi íbúafjölda. Kynningarfundur um fyrirhugaðar stækkanir fór fram í júní á árinu 2011. Niðurstaðan er að eitt skólahús skyldi vera á Siglufirði og eitt á Ólafsfirði.
Uppbygginu á Ólafsfirði er nú lokið í samræmi við þessar hugmyndir. Hins vegar á eftir að byggja verknámsstofur og mötuneyti fyrir nemendur á Siglufirði. Ætlunin var að hefja framkvæmdir sem fyrst á árinu 2013 og hefur tillaga að viðbyggingu verið hönnuð. Tillagan var grenndarkynnt hagsmunaaðilum og bárust nokkrar athugasemdir.
Í ljósi athugasemda verður að telja eðlilegt að skoða betur deiliskipulag reitsins.
Bæjarráð telur að við þá vinnu verði tekið mið af núverandi húsnæðisþörf grunnskólans. Vísast hér í samþykkt bæjarstjórnar frá 14. september 2011.
Bæjarráð telur þar með ekki rétt að ráðast í eins viðamiklar framkvæmdir og teikningar frá 1994 gerðu ráð fyrir. Verði síðar þörf á stækkun s.s. vegna fjölgunar eða breyttra aðstæðna verði deilskipulagið aftur tekið til endurskoðunar.
Vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar, við grunnskólann á Siglufirði, er rétt að taka fram að á lóðinni Eyrargötu 1 stóð hús sem bæjarfélagið lét rífa. Það hús bar nafnið "Rauða myllan". Húsið var tveggja hæða og var nánast í sömu fjarlægð frá Eyrargötu 3 og fyrirhuguð viðbygging kemur til með að rísa.
Bæjarráð felur jafnframt skipulags- og umhverfisnefnd að höfðu samráði við arkitekta og Landslög/Ívar Pálsson að svara fram komnum athugasemdum.
Tillaga samþykkt með 2 atkvæðum. Sólrún sat hjá.
Sólrún Júlíusdóttir óskaði að eftirfarandi yrði bókað vegna grenndarkynningar
"Undirrituð harmar það að grenndarkynning hafi ekki farið af stað fyrr í ferlinu. Sveitarfélagið á að kappkosta að hafa frið við íbúa og alls ekki að ganga á þeirra rétt. Þá ber að hafa það í huga að í þessu tilfelli er sveitarfélagið umsækjandi um byggingarleyfi og um leið úrskurðaraðili í athugasemdum sem fram eru komnar í grenndarkynningu. Sveitarfélagið þarf að huga vel að stjórnsýslureglum í þessu sambandi."