Bæjarráð Fjallabyggðar

346. fundur 08. júlí 2014 kl. 17:00 - 19:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • Kristinn Kristjánsson varaformaður, F lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir aðalmaður, D lista
  • Jón Valgeir Baldursson varaáheyrnarfulltrúi, B lista
  • Sigurður V Ásbjarnarson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri fjármála- og stjórnsýslu

1.Kortlagning auðlinda í ferðaþjónustu - beiðni um tilnefningu fulltrúa í samráðshóp

Málsnúmer 1407009Vakta málsnúmer

Ferðamálastofa í samvinnu við Alta stendur fyrir verkefninu "Kortlagning auðlinda í ferðaþjónustu á Íslandi".
Til að grunnurinn verði skilvirkur er nauðsynlegt að allar upplýsingar séu rétt skráðar.
Óskað er eftir því að Fjallabyggð tilnefni einn fulltrúa í svæðisbundinn stýrihóp fyrir verkefnið.

Bæjarráð leggur til að fulltrúi Fjallabyggðar sé markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar.

Samþykkt samhljóða.

2.Trúnaðarmál - starfsmannamál

Málsnúmer 1401071Vakta málsnúmer

Umfjöllun bæjarráðs er skráð sem trúnaðarmál.

3.Styrkbeiðni vegna endurnýjunar á tengigangi Hóls

Málsnúmer 1407024Vakta málsnúmer

Í bréfi frá formanni UÍF dags. 4. júlí er gerð grein fyrir ályktun til f.v. bæjarstjórnar og allra bæjarfulltrúa Fjallabyggðar. Þar kemur fram að ársþingið harmar það verklag f.v. bæjarstjórnar að vísa styrkbeiðni til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015.  
Þingið óskar, að bæjarstjórn Fjallabyggðar endurskoði ákvörðun sína um aðkomu að endurbyggingu á tengigangi Hóls.
Sótt var um 8 m.kr. framlag til verksins.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir fundi með formanni UÍF.

4.Sameining íbúða á 3ju hæð í Skálarhlíð á Siglufirði

Málsnúmer 1407020Vakta málsnúmer

Sameining íbúða á 3ju hæð í Skálarhlíð var ekki fyrirhuguð í áætlun f.v. bæjarstjórnar.
Áætlaður kostnaður er um 7,5 m.kr.


Bæjarráð samþykkir að vísa framkvæmdinni og fjárveitingum til næsta árs og verður málið tekið fyrir við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2015.

5.Bókasafn Fjallabyggðar, Ólafsfirði - endurbætur

Málsnúmer 1401133Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarráðs þann 24. júní kom fram að verið væri að íhuga með hvaða hætti hægt væri að koma við eðlilegri þjónustu við íbúa Ólafsfjarðar er varðar bókasafn og almenna þjónustu bæjarfélagsins. Umræðan er tilkomin vegna ákvörðunar f.v. bæjarráðs sjá 343. fund frá 10. júní 2014 um að fresta framkvæmdum og þar með opnun á Ólafsvegi 4.

Í bókuninni kemur fram að stefnt er að opnun 1. janúar 2015.
Fram kom einnig að bæjarstjóri hefur rætt við forstöðumann bókasafnsins um hugmyndir að lausn á þessum vanda.

Álit forstöðumanns og deildarstjóra tæknideildar liggur nú fyrir, sjá bréf frá 4. júlí 2014. Þar kemur fram m.a. að núverandi húsnæði að Ólafsvegi 4 henti ágætlega og mun betur en eldra húsnæði bókasafnsins að Aðalgötu 15, Ólafsfirði. Meira rými er á Ólafsvegi 4 en á gamla staðnum og verður þetta bylting fyrir gesti safnsins. Forstöðumaðurinn leggur áherslu á neðantalda þætti í rekstrinum.

1. Aðalútlánadeild, þar sem væru skáldsögur og ævisögur.

2. Barnadeild.

3. Deild fyrir tímarit og fræðibækur.

4. Þjónusta við íbúa er varðar málefni bæjarfélagsins.


Deildarstjóri tæknideildar hefur tekið saman áætlaðan kostnað við lagfæringar og er það mat hans að kostnaðurinn yrði um 1,1 m.kr.

Búið er að fjárfesta í búnaði og hillum fyrir 3000 bókatitla og er áætlaður kostnaður um 2,0 m.kr. Búnaðurinn verður kominn til Fjallabyggðar um næstu mánaðarmót.

Hönnunarkostnaður við breytingar sem og útboðsgögn á húsnæðinu nemur nú um 4,65 m.kr.

Bæjarstjóri lagði fram vinnuskjal er varðar hugmyndir meirihluta bæjarráðs.


Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillögu að bókasafn og þjónustumiðstöð verði opnuð að Ólafsvegi 4 um miðjan ágúst.
S. Guðrún Hauksdóttir sat hjá.


Með þessari ákvörðun er ekki verið að hætta við fyrirhugaðar framkvæmdir við Ólafsveg 4 þ.e. stækkun hússins, en þeim framkvæmdum er slegið á frest og verður málið tekið til umræðu og afgreiðslu í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2015.

S. Guðrún Hauksdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Bæjarráð samþykkir að útboð vegna framkvæmda við viðbyggingu að Ólafsvegi 4, Ólafsfirði, verði auglýst aftur með rýmri verktíma sem miðast við verklok 31. desember 2014".

Tillagan borin upp og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði S. Guðrúnar Hauksdóttur.

S. Guðrún Hauksdóttir lagði fram eftirfarandi bókun.
”Undirrituð leggur þunga áherslu á að framkvæmdir við breytingar og viðbyggingu við Ólafsveg 4 hefjist sem fyrst í samræmi við samhljóða ákvörðun bæjarstjórnar þann 9. apríl s.l. um framtíðarhúsnæði bókasafnsins í Ólafsfirði og þjónustu og upplýsingamiðstöð fyrir íbúa. Gert hefur verið ráð fyrir fjármagni til framkvæmdanna á þessu ári.
Því tel ég nauðsynlegt að allra leiða verði leitað til að hefja framkvæmdir við varanlega lausn sem fyrst.“

Steinunn María Sveinsdóttir og Kristinn Kristjánsson lögðu fram eftirfarandi bókun.
”Lögð er áhersla á að hér er verið að fresta umfangsmiklum breytingum á umræddu húsnæði og aðkomu þ.e. að Ólafsvegi 4 en í staðinn er verið að opna þjónustu eftir sumarlokun á bókasafninu og tryggja opnun á almennri þjónustu við íbúa Ólafsfjarðar strax í haust. Framtíðarlausn á bókasafni og þjónustumiðstöð Fjallabyggðar í Ólafsfirði verði tekin til umræðu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015“

6.Gámasvæði Siglufirði - frágangur

Málsnúmer 1407021Vakta málsnúmer

Fram hafa komið hugmyndir um að setja innkomu að gámasvæði á suðurhlið lóðarinnar þannig að innkeyrsla komi frá Ránargötu.

Við nánari skoðun þá gerir deiliskipulagið ráð fyrir tveimur hliðum inn á svæðið að austanverðu. Ekki er búið að setja upp syðra hliðið og er áætlaður kostnaður við framkvæmdina um 1,4 m.kr. sjá minnisblað deildarstjóra tæknideildar frá 7. apríl.

Bæjarráð samþykkir að malbika innkeyrslu inn fyrir suðurhlið í þessum áfanga.

Bæjarráð telur rétt að ljúka við þennan áfanga á árinu 2014 og að gerð verði breyting á áætlun ársins með þetta í huga.

Miðað er við að fjármögnun verður innan heimilda í framkvæmdaáætlun ársins og er vísað í tillögu að viðauka 5 sem verður til afgreiðslu á næsta fundi bæjarráðs.

7.Húsnæðismál Leikskála

Málsnúmer 1404070Vakta málsnúmer

Deildarsstjórar fjölskyldu- og tæknideildar og bæjarstjóri hafa komið fram með tillögu um kaup á lausri leikskólastofu fyrir Leikskála. Deildarstjóri tæknideildar var falið að skoðað þær einingar sem koma til greina.

Lagt fram minnisblað deildarstjóra tæknideildar frá 3. júlí 2014.

Þar kemur fram að áætlaður heildarkostnaður með flutningi og uppsetningu er 8,5 m.kr.

Bæjarráð samþykkir að ráðast í framkvæmdina og að húsnæðið verði tilbúið í byrjun september til notkunar.


Miðað er við að fjármögnun verði innan heimilda í framkvæmdaáætlun ársins og er vísað í tillögu að viðauka 5 sem verður til afgreiðslu á næsta fundi bæjarráðs.

8.Umferðaröryggi skólabarna í Fjallabyggð

Málsnúmer 1406008Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra tæknideildar frá 25. júní 2014 er varðar frágang við biðstöðvar í Fjallabyggð ásamt áskorun til bæjarráðs frá skipulags- og umhverfisnefnd.

Fram kemur að heildarkostnaður við frágang biðstöðva í Fjallabyggð er áætlaður um 15 m.kr.

Áætlað er að ljúka að mestu við framkvæmd við tvær biðstöðvar af fjórum á árinu, en heildarkostnaður þeirra verka er áætlaður um 6,4 m.kr.

Ekki er gert ráð fyrir uppsetningu á biðskýli við hlið Aðalgötu 25 í aksturstefnu til Akureyrar í þessum áfanga á þessu fjárhagsári.

Bæjarráð tekur undir ábendingar skipulags- og umhverfisnefndar er varðar mikilvægi þess að ganga frá biðstöðvum í bæjarfélaginu og samþykkir fjárveitingu að upphæð 3,3 millj. kr til að ljúka framkvæmdum við þessar tvær biðstöðvar.

Bæjarráð leggur áherslu á að framkvæmdum verði lokið fyrir skólabyrjun 2014.

9.Vegur að skíðaskála í Tindaöxl í Ólafsfirði

Málsnúmer 1407022Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá 3. júlí frá deildarstjóra tæknideildar er varðar frágang á vegi að skíðasvæði í Ólafsfirði.
Áætlaður kostnaður er um 5,9 m.kr.
Hlutur bæjarfélagsins í framkvæmdinni er um 2,1 m.kr.

Skíðamót Íslands 2015 verður haldið í Ólafsfirði.

Bæjarráð samþykkir að ráðast í framkvæmdina á árinu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fá staðfestingu á aðkomu Vegagerðarinnar að fjármögnun framkvæmdarinnar og tímasetningu.


Miðað er við að fjármögnun verði innan heimilda í framkvæmdaáætlun ársins og er vísað í tillögu að viðauka 5 sem verður til afgreiðslu á næsta fundi bæjarráðs.

10.Ályktanir frá Landssambandi Slökkviliðs- og Sjúkraflutningamanna

Málsnúmer 1407008Vakta málsnúmer

Ályktanir lagðar fram til kynningar.

11.Sláttuvélar við knattspyrnuvelli - endurnýjun á vélarkosti

Málsnúmer 1407011Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá 3. júlí 2014 með ábendingu frá íþrótta- og tómstundafulltrúa er varðar viðgerð á sláttutraktor á knattspyrnuvelli og nauðsyn þess að gera ráð fyrir að endurnýja þurfi vélakost á íþróttasvæðum við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

12.Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra - Ársreikningur 2013

Málsnúmer 1406078Vakta málsnúmer

Ársreikningur 2013 lagður fram til kynningar.

13.Vegagerðin - Samgöngu og hafnamál í Fjallabyggð

Málsnúmer 1407023Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað bæjarstjóra frá fundi 26.06.2014 með vegamálastjóra og sviðstjóra siglingasviðs Samgöngustofu.

14.Rekstraryfirlit maí 2014

Málsnúmer 1407018Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar rekstraryfirlit fyrir fimm fyrstu mánuðina.
Rekstrarniðurstaða tímabils er 16,5 milljónum betri en tímabilsáætlun gerir ráð fyrir, -39,5 millj. miðað við -22,9 millj.
Tekjur eru 0,8 millj. hærri en áætlun gerði ráð fyrir, gjöld 7,7 millj. lægri og fjárm.liðir 8,0 millj. lægri.

15.Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014

Málsnúmer 1401020Vakta málsnúmer

Fundargerð 817. fundar frá 27. júní s.l. lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:00.