Bæjarráð Fjallabyggðar

607. fundur 04. júní 2019 kl. 16:30 - 18:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Staðgreiðsla tímabils - 2019

Málsnúmer 1901047Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit staðgreiðslu útsvars fyrir tímabilið janúar til maí 2019. Staðgreiðsla fyrir tímabilið nemur kr. 459.568.754 eða 103,52% af tímabilsáætlun.

2.Framlög til stjórnmálasamtaka - 2019

Málsnúmer 1905085Vakta málsnúmer

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála, dags. 03.06.2019 er varðar framlög til stjórnmálasamtaka á árinu 2019.

Á grundvelli laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldur þeirra, samþykkir bæjarráð að framlag vegna 2019 verði óbreytt kr. 360.000 og því verði úthlutað í samræmi við ákvæði 5 gr. laganna eftir kjörfylgi í Fjallabyggð í kosningum 2018.

3.Malbik á bæjarbryggju

Málsnúmer 1905086Vakta málsnúmer

Ármann V. Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar sat undir þessum lið.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar dags. 04.06.2019 þar sem óskað er eftir heimild bæjarráðs til þess að gera verðkönnun vegna undirvinnu fyrir malbik á Bæjarbryggju.

Eftirtöldum verktökum yrði gefin kostur á að bjóða í verkið:
Bás ehf, Sölvi Sölvason, Fjallatak ehf, Smári ehf, Árni Helgason ehf og Magnús Þorgeirsson.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra að gera verðkönnun í undirvinnu fyrir malbik á Bæjarbryggju.

4.Múrviðgerðir á Ráðhúsi Fjallabyggðar

Málsnúmer 1904086Vakta málsnúmer

Ármann V. Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar sat undir þessum lið.

Tilboð voru opnuð í "Endurbætur utanhúss" á Ráðhúsi Fjallabyggðar mánudaginn 3 júní.

Eftirfarandi tilboð bárust:

L7 ehf 25.999.250
Kostnaðaráætlun 15.367.000

Undirritaður leggur til að bæjarráð hafni tilboðinu og feli undirrituðum og bæjarstjóra að skoða aðra möguleika vegna verkefnisins.

Bæjarráð samþykkir að hafna tilboði L-7 ehf og felur bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að skoða aðra möguleika vegna verksins og leggja fyrir bæjarráð.


5.Fyrirspurn um flokkun og sorphirðu

Málsnúmer 1905087Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fyrirspurn frá Önnu Sigríði Einarsdóttur fh. mbl.is, dags. 27.05.2019 er varðar upplýsingar um sorphirðu og flokkunarmál hjá sveitarfélögum. Einnig lagt fram svar deildarstjóra tæknideildar við erindinu dags. 31.05.2019.

6.Kvörtun vegna fugla á tjörninni í Ólafsfirði

Málsnúmer 1905067Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Hönnu Brynju Axelsdóttur fh. Kristínar Ólafsdóttur íbúa að Ólafsvegi 2, Ólafsfirði, dags. 27. maí 2019 varðandi ágang og hávaða við heimili hennar frá öndum á tjörninni.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar úrvinnslu málsins.

7.Trúnaðarmál - Innheimta

Málsnúmer 1806061Vakta málsnúmer

Niðurstaða bókuð í trúnaðarbók.

8.Götulýsing 1. áfangi

Málsnúmer 1903002Vakta málsnúmer

Ármann V. Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar sat undir þessum lið.

Lagt fram erindi Ingva Óskarssonar fh. Ingva Óskarssonar ehf., dags. 29.05.2019 þar sem óskað er eftir upplýsingum varðandi útboð í götulýsingu 1. áfanga, útskipting ljóskerja og stólpa.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar dags. 04.06.2019 þar sem fram kemur að deildarstjóri hefur átt samtal við báða bjóðendur í verkið "Útskipting ljóskerja og stólpa" og er ljóst eftir þær viðræður að verktakarnir hafa boðið í verkið með sitthvorn skilning á einum verkþætti. Þessi verkþáttur er mjög veigamikill í verkinu og þess vegna er svo mikill munur á tilboðum. Undirritaður leggur til við bæjarráð að útboðsgögn verði lagfærð og verkið boðið út að nýju.

Raffó ehf hefur fallið frá tilboði sínu með tölvupósti dags. 4. júní 2019 vegna þessa misskilnings á gögnum.

Bæjarráð samþykkir í ljósi ofangreinds að hafna tilboði Ingva Óskarssonar ehf vegna mistúlkunar á gögnum og felur deildarstjóra að lagfæra útboðsgögn og bjóða verkið út að nýju.

9.Aðalfundur Norðurár bs

Málsnúmer 1905076Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Magnúsar Jónssonar fh. stjórnar Norðurár bs., dags. 28.05.2019 varðandi aðalfund Norðurár bs. sem haldinn verður í félagsheimilinu Miðgarði Skagafirði miðvikudaginn 5. júní kl. 16.

10.FÍB í Fjallabyggð 6-7 júní

Málsnúmer 1905078Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Steinþórs Jónssonar fh. Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), dags. 28.05.2019 þar sem þess er óskað að Fjallabyggð bjóði til móttöku með stuttri kynningu af svæðinu fimmtudaginn 6. júní nk. FÍB og norrænu systrafélögin; Forenede Danske Motorejere frá Danmörku, Autoliitto (AL) frá Finnlandi, Norges Automobil-Forbund (NAF) frá Noregi og Motormännens Riksförbund (M) frá Svíþjóð munu ferðast um Norðurland dagana 6.- 8. júní í tengslum við árlegan stefnumörkunar- og samstarfsfund norræna bifreiðaeigendafélaga, sem fram fer hér á landi fimmta hvert ár. Samhliða fundinum verður haldin sérstök kynning á Íslandi sem áhugaverðum áfangastað fyrir ferðalanga og félaga í þessum félögum.

Bæjarráð tekur vel í erindið og felur bæjarstjóra og markaðs- og menningarfulltrúa úrvinnslu málsins. Kostnaður vegna móttöku rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar.

11.Yfirlýsing vegna kjaraviðræðna

Málsnúmer 1905079Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS), dags. 28. 05.2019 vegna vísunar Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Eflingar á kjaraviðræðum við SNS til ríkissáttasemjara og fullyrðinga þeirra í tengslum við málið. Þar kemur meðal annars fram að í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga eru engin ákvæði er styðja breytingar á núverandi fyrirkomulagi lífeyrissjóðsaðildar félagsmanna SGS og Eflingar eða á framlögum launagreiðenda í lífeyrissjóði sem þeir eiga aðild að. Krafa SGS og Eflingar er því sú í raun að launagreiðendur greiði hærri kjarasamningsbundin iðgjöld í lífeyrissjóði félagsmanna sinna en aðrir starfsmenn sveitarfélaga njóta.

Þar sem kjaradeilunni hefur þegar verið vísað til sáttameðferðar embættis ríkissáttasemjara mun Samband íslenskra sveitarfélaga ekki tjá sig frekar opinberlega um málið á meðan það er í höndum embættisins.

12.Fyrsta flug Voigt Travel og Transavia til Akureyrar

Málsnúmer 1905080Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fréttatilkynning Markaðsstofu Norðurlands og Isavia dags. 28.05.2019 vegna fyrsta flugs Voigt Travel og Transavia til Akureyrar.

Bæjarráð fagnar beinu flugi milli Rotterdam og Akureyrar og bíður Voigt Travel og viðskipavini þeirra velkomna til Norðurlands.

13.Kynningarfundir ferðamálaráðherra 5. júní á Akureyri

Málsnúmer 1905081Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Rögnvaldar Helgasonar fh. Markaðsstofu Norðurlands, dags. 29.05.2019 þar sem athygli er vakin á fundi ráðherra ferðamála, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, um verkefni um viðmið sjálfbærni vegna fjölda ferðamanna á Íslandi. Fundurinn verður haldinn í Hofi Akureyri miðvikudagin 5. júní kl. 8:30.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til markaðs- og menningarfulltrúa.

14.Erindi til sveitarstjórnar - Flugklasinn Air 66N

Málsnúmer 1905082Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Hjalta Páls Þórarinssonar fh. Flugklasans Air 66N, dags. 31.05.2019 þar sem óskað er eftir áframhaldandi aðkomu sveitarfélagsins með framlagi sem nemur 300 kr. á hvern íbúa á ári í 3 ár frá 2020-2023. Markmið Flugklasans Air 66N er að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið um kring til framtíðar. Klasinn var stofnaður árið 2011 og síðan þá hefur mikið starf verið unnið til þess að búa í haginn og byggja upp svæðið til þess að taka á móti flugi beint til Norðurlands.

Bæjarráð samþykkir að greiða árlegt framlag, 300 kr. á íbúa frá árinu 2020-2023 og vísar erindinu til úrvinnslu deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála og gerðar fjárhagsáætlunar 2020.

15.Hvað höfum við gert? Sýningarréttur fyrir skóla

Málsnúmer 1905083Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Þrastar Gylfasonar fh. Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Tinnu Jóhannsdóttur fh. Sagafilm, dags. 29.05.2019 þar sem sveitarfélaginu er boðin afnotaréttur af þáttaröðinni, Hvað höfum við gert? sem sýnd hefur verið á RÚV til kennslu á grunn- og leikskólastigi. Um er að ræða 7 ára samning og hefur þegar verið samið við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Sveitarfélögum með 1001-3000 íbúa býðst afnotaréttur til sjö ára á kr. 200.000.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála.

16.Grænbók um stefnu í málefnum sveitarfélaga birt í samráðsgátt

Málsnúmer 1905006Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Karls Björnssonar fh. Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29.05.2019 þar sem sveitarfélög eru hvött til þess að taka Grænbókina til umræðu og senda inn umsögn um málið í samráðsgátt stjórnvalda fyrir 11. júní nk.

Einnig er boðað til auka landsþings sambandsins föstudaginn 6. september nk. á Grand Hóteli.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn bæjarstjóra og deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála og að Grænbókin verði gerð aðgengileg íbúum til kynningar og umsagnar á vef sveitarfélagsins.

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1375

17.Fundargerðir svæðisskipulagsnefndar

Málsnúmer 1905077Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 2. fundar Svæðisskipulagsnefndar Eyjafjarðar 2018-2022 frá 7. maí sl. ásamt skipulagstillögu og umhverfisskýrslu.

18.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2019

Málsnúmer 1901004Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir
72. fundar fræðslu- og frístundanefndar Fjallabyggðar frá 27. maí sl.
54. fundur markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar frá 29. maí sl.

Fundi slitið - kl. 18:00.