Lagt fram minnisblað bæjarstjóra og deildarstjóra félagsmáladeildar um þörf á sértækum húsnæðisúrræðum í Fjallabyggð, með áherslu á aðgengi hreyfihamlaða, með altæka hönnun að leiðarljósi þar sem tekið er mið af ólíkum þörfum íbúa.
Fram kemur að brýn þörf er á að fjölga húsnæðisúrræðum til langtímaleigu fyrir fatlað fólk og öryrkja í Fjallabyggð, með áherslu á ásættanlegar lausnir varðandi aðgengi, innhúss sem utan. Núverandi leiguíbúðarkerfi uppfyllir aðeins að hluta til þá þörf sem til staðar er í bæjarfélaginu.
Til að bæta úr þessu ástandi er mælt með að Fjallabyggð festi kaup á viðeigandi og hentugum leiguíbúðum sem flokkaðar verði sem sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og öryrkja, sbr. ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, 2. gr. 11. töluliður. Horft er til þess að íbúar í þessum íbúðum geti búið í sjálfstæðri búsetu með stuðningi, samkvæmt þjónustumati. Einnig er horft til þess að Fjallabyggð hafi til ráðstöfunar og úthlutunar sértæk húsnæðisúrræði sem ekki krefjast aðkomu einstakra húsnæðisfélaga.
Af því tilefni er lagður fram viðauki nr. 12 við fjárhagsáætlun 2023 þar sem fjárheimildir til fjárfestinga í sértæku húsnæði sbr. ofangreint eru auknar um kr. 67.000.000 og verður mætt með lækkun á handbæru fé.
Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson og Sigríður Ingvarsdóttir tóku til máls.