Formaður bæjarráðs leggur fram sameiginlega tillögu allra fulltrúa bæjarráðs, þess efnis að bæjarstjóra verði falið að leita eftir viðræðum við dómsmálaráðherra og forstjóra Landhelgisgæslu Íslands um stofnun varanlegrar björgunarmiðstöðvar Landhelgisgæslu Íslands í Fjallabyggð, n.t.t á Siglufirði. Einnig leggur formaður fram drög að bréfi til dómsmálaráðherra þar sem sveitarfélagið lýsir sig reiðubúið að koma að lausn til langrar framtíðar byggðri á mikilvægi þess að tryggja sem best viðbragð við vá á og úti fyrir Norður- og Austurlandi. Lausn felur m.a. í sér að ein þyrla Landhelgisgæslu Íslands hefði aðsetur á flugvellinum á Siglufirði og að mannvirki þar yrðu nýtt fyrir starfsemi þyrlusveitar landhelgisgæslunnar. Einnig er bent á að sá möguleiki er fyrir hendi að á hafnarsvæðinu yrði komið upp aðstöðu sem nýtist tilvonandi varðskipi gæslunnar bæði til legu og geymslu búnaðar. Að síðustu er í bréfinu bent á hve Siglufjörður liggur vel við norðlægum hafsvæðum og norðanverðu hálendi landsins sem og að allar aðstæður í Fjallabyggð séu vel til þess fallnar að byggja upp björgunarmiðstöð Landhelgisgæslu Íslands í Fjallabyggð, landinu öllu og norðurslóðum til heilla.
Samþykkt