Lagt er fram að nýju erindi Brynju Ingunnar Hafsteinsdóttur dags. 18. janúar 2020. Í erindinu er óskað eftir upplýsingum um hvort stöðuleyfi eða annað leyfi sé fyrir prammanum, og hvort eigendur prammans hafi greitt fyrir „aðstöðuna“ á bryggjunni. Loks er óskað eftir upplýsingum um hvort almennt sé heimilt að „staðsetja“ báta eða aðra lausamuni á bryggjum sveitarfélagsins.
Í umbeðnu svari tæknideildar kemur fram að samkvæmt dagbókum frá höfninni hafi pramminn verið tekinn á land á Óskarsbryggju þann 06. febrúar 2019. Fram að þeim tíma hafi pramminn legið við öldubrjótskant og legugjöld verið greidd af honum þar. Ekki var sótt um formlegt stöðuleyfi til Hafnarstjórnar fyrir prammanum enda hafi sú staða komið upp að pramminn var að sökkva og honum komið á land til þess að bjarga verðmætum.
Tæknideild hafði sambandi við eiganda/umsjónarmann prammans. Hann sagði að búið væri að endurnýja allan botn og hliðar í prammanum og eina sem eftir væri er að mála hann og í framhaldi að sjósetja. Hann sagði að pramminn yrði málaður í vor þegar hagstæð veðurskilyrði væru til staðar.
Almennt er heimilt að staðsetja báta, lausamuni eða aðra muni á hafnarsvæði í 5 daga gjaldfrjálst, eftir það greiðist samkvæmt gjaldskrá hafnarsjóðs. Geymsla er aðeins heimil með leyfi hafnarvarða.
Hafnarstjórn felur deildarstjóra tæknideildar, í samvinnu við hafnarstjóra, að svara erindinu. Einnig felur hafnarstjórn yfirhafnarverði að skoða fyrirkomulag geymslu lausamuna á hafnarsvæðinu og koma með tillögu að úrbótum.