Opnunartími íþróttamiðstöðvar um helgar

Málsnúmer 1808076

Vakta málsnúmer

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 59. fundur - 30.08.2018

Erindi bárust frá íbúum Fjallabyggðar þar sem óskað var eftir að opnunartími íþróttamiðstöðva/sundlauga um helgar yrði lengdur. Fræðslu- og frístundanefnd felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að taka saman kostnað við lengdan opnunartíma og vísar erindinu til bæjarráðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 571. fundur - 11.09.2018

Undir þessum lið sátu Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri fræðslu-, frístunda og menningarmála og Haukur Sigurðsson, forstöðumaður Íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar.

Á 59. fundi fræðslu- og frístundanefndar Fjallabyggðar, þann 30.08.2018 fjallaði nefndin um erindi frá íbúum um lengdan opnunartíma íþróttamiðstöðva/sundlauga um helgar. Fól nefndin deildarstjóra fræðslu,- frístunda, og menningarmála að taka saman kostnað við lengdan opnunartíma og vísaði erindinu jafnframt til bæjarráðs.

Lagt fram minnisblað frá deildarstjóra fræðslu,- frístunda, og menningarmála dags. 03.09.2018 þar sem fram kemur að áætlaður kostnaður við að lengja opnunartíma íþróttamiðstöðva/sundlauga í Fjallabyggð um fjóra tíma á laugardögum og sunnudögum er kr. 580.662 á mánuði og er þá ótalinn annar rekstrarkostnaður sem fellur til vegna lengdrar opnunar.

Áætlaður kostnaður við að lengja opnunartíma íþróttamiðstöðva/sundlauga um tvo tíma á laugardögum og sunnudögum er kr. 290.327, á mánuði fyrir utan annan rekstrarkostnað sem til fellur vegna lengdrar opnunar.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.