Lagt fram bréf frá Vegagerðinni dags. 23. júní 2014, þar sem tekið er undir sjónarmið þeirra landeigenda sem eiga hluta af Siglunesi, um að veruleg hætta sé á að skemma verði fyrir skemmdum vegna ágangs sjávar. Þar er lagt til að brugðist verði við og sjávarvörn sett upp við skemmuna á 35 m. kafla. Einnig er vísað í skýrslu SÍ frá 2009.
Áætlaður kostnaður er um 3,9 m.kr. og er hlutur ríkisins 7/8 og landeigenda/sveitarfélagsins 1/8.
Í bréfinu kemur fram að Vegagerðin mun leggja til við Innanríkisráðuneytið skv. 9. gr. laga um sjóvarnir 1997/28 að heimila þegar í stað framkvæmdir við gerð sjóvarna fyrir framan skemmuna.
Bæjarráð telur eðlilegt að landið sé varið og mun skoða aðstæður á næstu dögum. Ljóst er að ekki er gert ráð fyrir framlagi á fjárhagsáætlun bæjarfélagsins á þessu ári og ekki liggur fyrir samþykki Innanríkisráðuneytis fyrir framkvæmdinni.
Bæjarráð leggur áherslu á ábendingar frá Skipulagsstofnun, sjá bréf dags. 25. mars 2014, en þar segir m.a. að áform um efnistöku á landi landeigenda kallar á breytingu á aðalskipulagi.
Bæjarráð áréttar einnig að uppfylla þurfi ábendingar skipulags- og umhverfisnefndar, sjá bókun í fundargerð frá 7. september 2011, áður en framkvæmdarleyfi verði gefið út.
Tæknideild Fjallabyggðar er falið að gera umræddar breytingar á aðalskipulagi, komi til þess að ráðuneytið samþykki fjármagn til framkvæmdarinnar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að rita öllum landeigendum bréf er varðar framkomið erindi.
Verði af framkvæmdinni á árinu 2014 mun bæjarráð vísa hlutdeild bæjarfélagsins kr. 487.500.- til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015.