Deiliskipulag og umhverfisskýrsla fyrir Þormóðseyri var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, frá 8. ágúst til og með 19. september 2013. Deiliskipulagssvæðið er um 10,5 ha að stærð og tekur yfir norðausturhluta Þormóðseyrar, það svæði sem skilgreint er að mestu sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi. Þar eru skipulagðar fjölbreyttar athafnalóðir sem henta eiga fyrir mismunandi gerðir fyrirtækja með góðum tengingum við höfnina og samgönguæðar. Á auglýsingatíma bárust tvær athugasemdir, ein frá Vegagerðinni og önnur frá Skipulagsstofnun.
Nefndin tekur undir athugasemd Skipulagsstofnunar og samþykkir að fyrirhuguð gata meðfram hafnarsvæðinu verði einungis sýnd til skýringar og að eldra deiliskipulag hafnarsvæðisins haldi gildi sínu á þeim svæðum sem liggja utan skipulagsmarka deiliskipulags Þormóðseyrar.
Varðandi athugasemd Vegagerðarinnar telur nefndin rétt að ítreka að fyrirhuguð stofnbraut sem liggur utan marka deiliskipulagsins er einungis sýnd til skýringar.
Nefndin samþykkir að ónefnd gata í deiliskipulagstillögunni verði nefnd Skipagata. Einnig ítrekar nefndin að í deiliskipulaginu sé einungis heimild til niðurrifs á ákveðnum byggingum en það sé ekki kvöð sem hvíli á húseiganda.
Af öllu framansögðu samþykkir nefndin að deiliskipulagið verði sent til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með áorðnum breytingum og felur jafnframt tæknideild að senda svör við athugasemdum til þeirra sem sendu inn athugasemdir.