Á 150. fundi nefndarinnar þann 6. febrúar síðastliðinn voru lagðar fram athugasemdir íbúa í grennd við Aðalgötu 6 og 6b þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum af ástandi húsanna. Kom fram að tæknideild hafði sent eigendum fyrrgreindra húsa úrbótabréf þar sem eigendum var gefinn hæfilegur frestur til þess að gera nauðsynlegar úrbætur á fasteignum sínum ella yrði farið í frekari aðgerðir. Málið er nú tekið fyrir að nýju og leggur nefndin fram eftirfarandi bókun.
Vegna Aðalgötu 6
Lagt fram bréf eigenda Aðalgötu 8, dags 28. janúar 2013 og sýslumannsins á Siglufirði, dags. 29. janúar 2013 þar sem kvartað er undan hættu og frágangi húsanna nr. 6 og 6b við Aðalgötu. Lögð fram bréf tæknifulltrúa frá 1. febrúar 2013 og ítrekun frá 11. mars 2013 þar sem krafist er úrbóta að viðlögðum dagsektum. Einnig lagður fram tölvupóstur eiganda Aðalgötu 6 frá 2. maí 2013 þar sem fram kemur að hann sé að láta teikna upp klæðningar, muni óska samþykkta á því og hefja framkvæmdir í kjölfarið.
Í ljósi fyrirliggjandi svara eiganda er óskað eftir að eigandi hússins leggi fram, innan tveggja vikna, tímasetta áætlun um hvenær framkvæmdir hefjist við lagfæringar húsinu og hvenær þeim verði lokið. Jafnframt verði gerð grein fyrir því í hverju lagfæringarnar eiga að felast og hvernig öryggi verði tryggt fram til þess tíma að hafist verður handa við framkvæmdir. Berist ekki slík áætlun innan þess tíma verður málið á ný tekið fyrir nefndina og tekin ákvörðun um hvort rétt sé að leggja dagsektir á eiganda eða beita öðrum úrræðum laga um mannvirki s.s. framkvæmdum á kostnað eiganda. Verður eiganda í kjölfarið gefinn stuttur frestur til að tjá sig um mögulega álagningu og fjárhæð dagsekta eða framkvæmdir á kostnað eiganda. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að gengið verði frá húsinu fyrir veturinn til að ekki hljótist tjón eða skapist frekari hætta vegna þess.
Vegna Aðalgötu 6b
Lagt fram bréf eigenda Aðalgötu 8, dags 28. janúar 2013 og sýslumannsins á Siglufirði, dags. 29. janúar 2013 þar sem kvartað er undan hættu og frágangi húsanna nr. 6 og 6b við Aðalgötu. Lögð fram bréf tæknifulltrúa frá 1. febrúar 2013 og ítrekun frá 11. mars 2013 þar sem krafist er úrbóta að viðlögðum dagsektum. Þá er lagður fram tölvupóstur forsvarsmanns eiganda Aðalgötu 6b frá 21. mars 2013, þar sem m.a. er kvartað undan fyrirvaralausum hótunum um beitingu dagsekta og óskað eftir viðræðum við sveitarfélagið um málið. Jafnframt lagður fram tölvupóstur frá Berg ehf., dags. 26. maí 2013, þar sem fram kemur að félagið muni ráðast í viðgerð á þaki iðnaðarskemmu í sumar.
Í ljósi fyrirliggjandi svara eiganda og verktaka er óskað eftir að eigandi hússins leggi fram, innan tveggja vikna, tímasetta áætlun um hvenær framkvæmdir hefjist við lagfæringar húsinu og hvenær þeim verði lokið. Jafnframt verði gerð grein fyrir því í hverju lagfæringarnar eiga að felast og hvernig öryggi verði tryggt fram til þess tíma að hafist verður handa við framkvæmdir. Berist ekki slík áætlun innan þess tíma verður málið á ný tekið fyrir nefndina og tekin ákvörðun um hvort rétt sé að leggja dagsektir á eiganda eða beita öðrum úrræðum laga um mannvirki s.s. framkvæmdum á kostnað eiganda. Verður eiganda í kjölfarið gefinn stuttur frestur til að tjá sig um mögulega álagningu og fjárhæð dagsekta eða framkvæmdir á kostnað eiganda. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að gengið verði frá húsinu fyrir veturinn til að ekki hljótist tjón eða skapist frekari hætta vegna þess.